Viðskipti innlent

Fjölmennasti fæðingarárgangur sögunnar í uppsiglingu

Greining Íslandsbanka segir að líklegt sé að fæðingarárgangur yfirstandandi árs verði sá fjölmennasti í sögunni. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar.

Greiningin fjallar um fólksfækkunina hér á landi en landsmenn voru 317.593 í byrjun desember í ár og hafði þá fækkað um 0,7% eða 2.163 manns frá sama tíma í fyrra. Fækkunina má hengja á kreppuna. Þetta eru mikil umskipti frá þeirri þróun sem verið hefur á undaförnum árum, sér í lagi ef tekið er mið af árunum 2004-2008 þegar landsmönnum fjölgaði að meðaltali um 6.600 manns á ári sem jafngildi árlega fjölgun upp á 2,2%.

Jafnframt þarf að fara mörg ár aftur í tímann til þess að finna tímabil þar sem landsmönnum fækkaði. Síðast fækkaði íbúum á Íslandi árið 1888 eða fyrir 121 ári síðan en á þeim tíma fluttu mörg hundruð Íslendinga til Ameríku vegna versnandi efnahagsástands hér heima við. Það var Hagstofan sem birti tölur um þetta nú í morgun.

Fækkun landsmanna á árinu stafar einkum af fækkun einstaklinga með erlent ríkisfang. Þannig hefur einstaklingum með erlent ríkisfang fækkað um 3.099 manns milli ára en á hinn bóginn hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 936 á sama tíma.

Þessi þróun hvað íslenska ríkisborgara varðar kann að koma á óvart þar sem flutningsjöfnuður þeirra, þ.e. aðfluttir umfram brottflutta, var neikvæður um 1.949 manns á fyrstu níu mánuðum ársins. Má því telja nokkuð víst að náttúrulega fólksfjölgun (fæddir umfram dána) eigi hér stóran þátt í fjölgun íslenskra ríkisborgara en líklegt er að fæðingarárgangur yfirstandi árs verði sá fjölmennasti í sögunni, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×