Viðskipti innlent

Eigandi aflandsfélags vill greiða 80 milljónir

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Eigandi aflandsfélags í Lúxemborg hefur óskað eftir að fá að leiðrétta skattframtalið sitt og greiða um 80 milljónir króna í sameiginlega sjóði.

Skattyfirvöld íhuga að stefna eigendum aflandsfélaga sem neita að upplýsa um fé í skattaskjólum.

Skattyfirvöld hafa undanfarið unnið að því að greina eignarhald á íslenskum fyrirtækjum og tengsl íslenskra aðila við erlend félög í skattaskjólum. Um 400 félög hafa verið til skoðunar og nema upphæðirnar sem fóru inn í þessi félög milljörðum króna. Lægstu upphæðirnar sem fóru inn í eitt félag nema 50 milljónum króna en hæstu í kringum milljarð. Féð var ýmist fært sem eigið fé og í sumum tilvikum sem lán til eigenda sinna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur skattyfirvöldum tekist að greina hverjir raunverulegir eigendur um 60 félaga eru. Nú er óskað eftir upplýsingum um hvaða starfsemi hefur verið í þessum félögum. Ítrekað hafa eigendur neitað að gefa slíkar upplýsingar. Nýtt ákvæði í skattalögum segir þó að lögaðilum beri að veita upplýsingar um erlend dótturfélög sín. Samkvæmt heimildum fréttastofu munu skattyfirvöld nota öll tiltæk ráð til að afla þessara upplýsinga en til skoðunar er að höfða mál gegn þeim sem neita að láta þær í té. Þegar hefur einn einstaklingur óskað eftir að fá að leiðrétta skattframtalið sitt.

Sá átti svokallað 1929 félag í Lúxemborg en slík félög eru undanþegin frá skatti. Leiðréttingin auk 25 prósenta álagi mun nema um 80 milljónum króna. Sú upphæð færi langt með að reka æðsta dómstól landsins, Hæstarétt í heilt ár en samkvæmt fjárlögum kostar rekstur hans 105,8 milljónir króna á ársgrundvelli.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×