Viðskipti innlent

Viðskiptavinum auðveldað að greiða niður yfirdrátt

Íslandsbanki býður einstaklingum í viðskiptum við bankann að greiða niður yfirdráttarlán með mánaðarlegum greiðslum með hagstæðari kjörum á allt að tveimur árum.

Þrátt fyrir efnahagsþrengingar hefur áhugi fjölmargra viðskiptavina á að hagræða með niðurgreiðslu lána aukist. Umrædd lausn er sniðin að þeim viðskiptavinum sem eru með yfirdráttarlán undir einni milljón króna.

Viðskiptavinir Íslandsbanka geta lækkað yfirdráttinn með því að undirrita samkomulag við sitt viðskiptaútibú. Með því móti lækka vextir á yfirdrættinum niður í 11,75%, miðað við núgildandi vaxtakjör. Með þessu móti gefst viðskiptavinum færi á að lækka vaxtakostnað sinn verulega og um leið að losa sig við yfirdráttinn á allt að tveimur árum.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að þessu fylgir verulegur sparnaður í vaxtakostnaði þar sem yfirdráttarlán eru dýrustu lán sem einstaklingum bjóðast.

„Sem dæmi má nefna að viðskiptavinur í vildarþjónustu Íslandsbanka, sem er með 300 þúsund krónur í yfirdrátt og greiðir hann niður um 12.500 kr. á mánuði í 2 ár, getur lækkað hjá sér vaxtakostnað um allt að 53 þúsund krónur á þessum tveimur árum."

„Yfirdráttur er allajafna meðal óhagstæðustu lánsforma sem í boði eru. Margir hafa því miður ekki náð að greiða yfirdráttinn til baka eins fljótt og þeir ætluðu sér en þess í stað hefur hlaðist upp mikill vaxtakostnaður. Með þessari þjónustu viljum við auðvelda fólki að lækka óhagstæðar skammtímaskuldir og koma til móts við óskir heimila og einstaklinga um að hagræða í sínu heimilisbókhaldi," segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×