Viðskipti innlent

Neytendasamtökin krefja Nýja Kaupþing um svör vegna lána

Neytendasamtökunum hefur enn ekkert svar borist frá Nýja Kaupþingi við fyrirspurnum sínum um lán bankans í erlendri mynt til viðskiptavina sinna. Samtökin telja að bankinn hafi gerst brotlegur við lög með þessum lánum sínum.

Fjallað er um málið á vefsíðu samtakanna. Þar segir að Neytendasamtökin sendu Kaupþingi erindi þann 1. október og óskuðu eftir svörum frá bankanum varðandi það hvernig bankinn myndi koma á móts við viðskiptavini sína sem tekið hefðu lán í erlendri mynt.

Bæði Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála höfðu komist að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði brotið gegn lögum um neytendalán en bankinn upplýsti viðskiptavini sína ekki um það með skýrum hætti hvernig vextir væru samansettir og við hvaða aðstæður þeir gætu breyst.

Neytendasamtökin ítrekuðu öðru sinni erindið til bankans 16. október þegar ekkert svar hafði borist og óskuðu eftir svari í síðasta lagi 20. október. Ekkert svar hefur hins vegar borist frá bankanum.

Neytendasamtökin gagnrýna þessi vinnubrögð enda liðið heilt ár síðan erindi vegna málsins var fyrst sent Neytendastofu. Kaupþing hefur því haft nægan tíma til að ákveða með hvaða hætti lántakendum verður bætt tjónið.

Neytendasamtökin hvetja lántakendur, sem telja að bankinn hafi brotið á sér, til að senda bankanum kröfu vegna þess tjóns sem bankinn hefur valdið.

Félagsmaður samtakanna hefur sent erindi til bankans og krafist leiðréttingar á ofgreiddum vöxtum auk dráttarvaxta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×