Viðskipti innlent

Yfir 50 embættismenn með hærri tekjur en Jóhanna

Höskuldur Kári Schram skrifar

Rúmlega fimmtíu embættismenn og forstjórar ríkisfyrirtækja voru með hærri tekur á mánuði á síðasta ári en sem nemur launum forsætisráðherra. Sá sem var með hæstar tekjur var með yfir sex milljónir króna á mánuði.

Þetta kemur fram í tekjublaði Frjálsrar verslunar. Alls eru 55 embættismenn og forstjórar ríkisfyrirtækja með meira en 935 þúsund krónur á mánuði í tekjur eða sem nemur launum forsætisráðherra.

Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri Forsætisráðuneytisins, er lang efstur á listanum með rúmar 6 milljónir króna í tekjur á mánuði. Sá sem kemur næst er Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi meða tæpa eina milljón og níu hundruð þúsund krónur á mánuði.

Alls 42 með meira en milljón á mánuði og fimm með meira en eina og hálfa milljón á mánuði. Rétt er að taka fram að hér er um heildartekjur að ræða en ekki bara launatekjur.

Laun æðstu stjórnenda stofnana og félaga í eigu ríkisins verða ekki hærri en laun forsætisráðherra samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra.

Fram kom í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Skúla Helgasonar, alþingismanns, að 402 ríkisstarfsmenn eru nú með hærri heildarlaun en forsætisráðherra. Í langflestum tilvikum er um lækna að ræða.

Gert er ráð fyrir því að ríkið gæti sparað um einn og hálfan milljarð króna á ári með frumvarpi fjármálaráðherra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×