Viðskipti innlent

Hagdeild ASÍ: Kreppan nær botni á fyrrihluta næsta árs

Sú mikla lægð sem gengur yfir íslenskt efnahagslíf nær botni sínum á fyrri hluta næsta árs og fyrir höndum er vinna við að reisa hagkerfið að nýju. Mikill samdráttur í landsframleiðslu leiðir til þess að landsmenn hafa minni verðmæti til skiptanna og tímabundið dregur úr lífskjörum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri spá hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum til ársins 2012.

Fjallað er um spánna á heimasíðu ASÍ. Þar segir að hagdeildin spáir 8% samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári og áframhaldandi samdrætti á fyrri hluta næsta árs en eftir það fer hagkerfið að rétta úr kútnum.

Staða heimilanna verður áfram erfið ráðstöfunartekjur dragast saman og atvinnuleysi verður mikið. Búast má við því að atvinnuleysi verði 8-10% næstu árin en lagist heldur undir lok spátímans.

Verðbólga hjaðnar hratt á næstunni og meiri stöðugleiki verður í verðlagi. Gengi krónunnar styrkist lítillega þegar líða tekur á spátímabilið en helst áfram veikt. Stýrivextir fara lækkandi en gert er ráð fyrir fremur aðhaldssamri peningastefnu og að slakað verði á gjaldeyrishöftum í áföngum.

Háar vaxtagreiðslur, mikil útgjöld vegna atvinnuleysis og samdráttur í skatttekjum valda verulegum hallarekstri hjá hinu opinbera sem óhjákvæmilegt er að ráðast gegn.

Svigrúm hins opinbera til fjárfestinga er lítið næstu árin en gert er ráð fyrir að þeim samdrætti verði að hluta mætt með tilfærslu verkefna í einkaframkvæmd. Óvissa ríkir um mörg fjárfestingaverkefni vegna erfiðleika við fjármögnun og almennrar óvissu um þróun efnahagsmála.

Verði ekki af áætluðum stóriðjuframkvæmdum eða einkaframkvæmdum hefur það umtalsverð áhrif á efnahagslífið á komandi árum og eykur atvinnuleysi enn frekar. Gera má ráð fyrir að hagvöxtur áranna 2010-2012 verði 6,7 prósentustigum minni en ella ef ekkert verður af þessum verkefnum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×