Viðskipti innlent

Íslenskir fjárfestar í samstarf við rafbílaframleiðendann REVA

Íslenska fjárfestingarfélagið Northern Lights Energy og rafbílaframleiðandinn REVA undirrita samkomulag um sölu og markaðssetningu REVA á Íslandi.  Fyrstu eitthundrað rafbílarnir verða afhendir á næsta ári og hagkvæmisathugun er í gangi um uppsetningu samsetningaverksmiðju rafbíla hér á landi.

Í tilkynningu segir að Northern Lights Energy (NLE) stendur að verkefninu „2012 Nýtt upphaf" sem snýst um þróun grunnkerfis og þjónustu fyrir rafbíla á Íslandi. NLE hefur náð samkomulagi við REVA um sölu og markaðssetningu REVA rafbíla á Íslandi og í Færeyjum.

Á bílasýningunni í Frankfurt í september síðastliðnum frumsýndi REVA nýjan rafbíl, REVA NXR. Bíllinn er fjögurra sæta, þriggja dyra fjölskyldubíll sem hentar vel sem borgarbíll. Hámarkshraði er 104 km á klst. og hægt er að komast 160 km vegalengd á einni hleðslu.

Á komandi árum mun REVA setja á markað eitt nýtt módel á ári og er næsta í röðinni tveggja sæta sportbíllinn NXG. NLE mun hefja sölu og markaðssetningu á nýja rafbílnum frá REVA um mitt næsta ár og fá viðskiptavinir fyrstu bílana afhenta í árslok en þeir verða þeir fyrstu sem REVA afhendir í Evrópu.

REVA hefur á undanförnum árum selt rafbíla í 26 löndum. Fyrirtækið kynnti nýlega samstarfsverkefni með General Motors (GM) sem felst í því að útvega drifbúnað og rafstýrikerfi fyrir Chevrolet Spark, nýjan rafbíl sem GM hyggst setja á markað árið 2011.

Bílarnir sem koma til landsins koma úr nýrri verksmiðju sem hefur framleiðslugetu upp á 30.000 rafbíla á ári, en verksmiðjan er ein sú umhverfisvænsta í heiminum og gengur að mestu fyrir sólarorku. NLE og REVA eru að meta hagkvæmni þess að setja upp sambærilega samsetningarverksmiðju hér á landi, sem þjónusta myndi Evrópumarkað.

„NLE vinnur að þróun og uppsetningu rafhleðslukerfis fyrir rafbíla hér á landi undir merkjum 2012 nýtt upphaf. Hátt hlutfall endurnýjanlegra og vistvænna orkugjafa gera Ísland að ákjósanlegum stað fyrir mengunarfría rafbíla" segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður NLE.

„Við erum mjög spennt yfir samstarfinu við NLE. 2012 verkefnið er eitt það metnaðarfyllsta á sviði rafbíla í heiminum í dag og við erum ánægð með að geta lagt tækni okkar og vörur til verkefnisins," segir Keith Johnston, forstjóri Evrópudeildar REVA.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×