Erlent

Bjargaði eigin lífi

Ellefu ára bresk stúlka náði á síðustu stundu að bjarga lífi sínu þegar bíll sem hún sat í, féll fram af kletti og ofan í sjó.

Stúlkan var í útilegu með afa sínum og ömmu í Denbighshire á Englandi. Hún sat í rólegheitum í bílnum og hlustaði á tónlist þegar hún óvart losaði handbremsuna. Árangurslaust reyndi hún að setja bílinn aftur í handbremsu meðan hann rann í átt að klettabrúninni. Í leiðinni reif hann með sér tjöld og annan útilegubúnað en mildi þykir að enginn hafi verið inni í þeim. Þegar stúlkan sá í hvað stefndi, tókst henni með snarræði að henda sér út úr bílnum, augnabliki áður en hann féll fram af og niður í vatn.

Sjúkraliði sem kom fyrstur á vettvang sagði það kraftaverk að stúlkan skyldi hafa komist út úr bílnum og að hún hafi sýnt mikið hugrekki þegar hún henti sér út og hún hefði aldrei lifað fallið af en bíllinn skall fyrst á steina áður en hann hentist í vatnið.

Stúlkan var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar en hún hlaut minniháttar skrámur. Hún var þó eðlilega í sjokki eftir atvikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×