Viðskipti innlent

Fyrsta aukning í bílasölu á síðustu 12 mánuðum

Í nóvember voru nýskráðir 152 bílar hér á landi og er það aukning frá sama tímabili í fyrra þegar nýskráðir voru 123 bílar. Aukningin er sú fyrsta sem mælist yfir tólf mánaða tímabil í nýskráningu bifreiða síðan í febrúar 2008, þ.e. við upphaf efnahagskreppunnar.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að hér sé á ferðinni vísbending um að botninum í vissum hluta neyslunnar hafi verið náð þegar. Kemur þetta fram í tölum sem Hagstofan birti í morgun.

Þrátt fyrir aukninguna nú er nýskráning bifreiða mjög lítil enn og voru í nóvember síðastliðnum nýskráðir 92% færri bifreiðar í landinu en í nóvember 2007. Árið 2007 var reyndar afar stórt bílasöluár í sögunni og voru þá nýskráðir í heild 22.603 bifreiðar í landinu.

Til samanburðar má nefna að á fyrstu ellefu mánuðum ársins í ár hafa 2.747 þús. bifreiðar verið nýskráðar sem er 87% færri en á sama tímabili 2007 og 78% færri en á sama tímabili í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×