Viðskipti innlent

Seðlabankinn með 30% af heildargjaldeyrisveltu

Sala Seðlabankans á gjaldeyri á innlendum gjaldeyrismarkaði í júlí námu tæplega 30% af heildarveltu markaðarins. Alls nam nettósala Seðlabanka á gjaldeyri í mars um það bil 7,5 milljónum evra sem jafngildir 1.350 milljörðum króna.

Það samsvarar því að bankinn hafi tíu sinnum beitt inngripum í mánuðinum, en þrír aðilar eru á millibankamarkaði með gjaldeyri og er lágmarksupphæð í viðskiptum við hvern þeirra 250 þúsund evrur.

Er þetta öllu minni inngrip en síðustu tvo mánuðina þar á undan, en nettósala Seðlabankans á gjaldeyri nam 11,7 milljónum evra í maí og rúmlega 14 milljónum evra í júní. Gróft áætlað jafngildir það 16 inngripum í maí og 19 inngripum í júní.

Þó er rétt að hafa í huga að hér er um nettótölur að ræða og hugsanlegt að einhver sala hafi átt sér stað á tímabilinu. Þetta kemur fram í hagtölum sem Seðlabankinn birti í gær.

Áhrif inngripa mun meiri nú en áður

Fróðlegt er að bera saman umsvif Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarna mánuði við tímabilið áður en gengi krónu hrapaði og gjaldeyrishöft voru sett á.

Árin 2004 - 2007 var raungengi krónu nánast samfellt yfir langtímameðaltali sínu og má kalla þetta tímabil hágengisskeið krónunnar. Á þeim tíma keypti Seðlabankinn jafnt og þétt gjaldeyri í því skyni að styrkja gjaldeyrisforða sinn.

Að meðaltali námu kaup seðlabankans tæplega 22 milljónum evra í mánuði hverjum á þessu tímabili.

Þessi kaup höfðu hins vegar lítil áhrif á gjaldeyrismarkað á þeim tíma enda var meðalvelta á millibankamarkaði í hverjum mánuði tæpir 260 milljarðar króna á tímabilinu.

Það sem af er þessu ári hefur meðalveltan verið 1,7% af meðalveltunni á tímabilinu frá 2004-2007. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×