Viðskipti innlent

Umfangsmikið markaðsátak ferðaþjónustu í Evrópu

F.v., Þorleifur Þór Jónsson, Útflutningsráði Íslands, Rannveig Grétarsdóttir, Eldingu Hvalaskoðun, Þórarinn Þór, Kynnisferðum, og Christina Stadler, Icelandair.
F.v., Þorleifur Þór Jónsson, Útflutningsráði Íslands, Rannveig Grétarsdóttir, Eldingu Hvalaskoðun, Þórarinn Þór, Kynnisferðum, og Christina Stadler, Icelandair.

Fulltrúar 13 ferðaþjónustufyrirtækja eru nú staddir í Þýskalandi í því skyni að kynna Ísland sem áfangastað fyrir þýska ferðamenn og er ferðin liður í markaðsátaki þeirra í Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útflutningsráði.

Að sögn Oddnýjar Bjargar Halldórsdóttur, sölustjóra innanlandsdeildar hjá Ferðaþjónustu bænda, hefur kynning íslensku fyrirtækjanna gengið afar vel og er framundan umtalsverð aukning þýskra ferðamanna til Íslands.

Flugfélögin German Wings, Air Berlin og Lufthansa hyggjast auka sætaframboð til Íslands næsta sumar og sama er að segja um Iceland Express og Icelandair. Þannig er gert ráð fyrir að í boði verði um 5000 sæti á viku til Íslands frá Þýskalandi á sumri komanda.

Útflutningsráð Íslands, Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar efna til markvissrar kynningar á íslenskri ferðaþjónustu á næstu mánuðum. Í því skyni hefur verið stofnaður sérstakur markaðshópur 13 öflugra ferðaþjónustufyrirtækja sem munu kynna þjónustu sína á völdum mörkuðum í Evrópu.

Fyrstu kynningarfundir fara nú fram í Frankfurt og Berlín með hátt í 100 þýskum ferðaskrifstofum og í byrjun desember fara fram samskonar kynningar í Amsterdam og Brussel.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×