Viðskipti innlent

Framtíð ParX í óvissu

Framtíð ParX, dótturfélags Nýherja, er í óvissu. Þórður Sverrisson forstjóri Nýherja segir aðspurður að unnið sé að endurskipulagningu ParX en verst allra frétta af málinu að öðru leyti.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að starfsfólk ParX hafi áhuga á að kaupa félagið. Þórður segist ekkert geta sagt um það á þessari stundi né hve langan tíma það taki að ljúka fyrrgreindri endurskipulagningu.

Þess má geta að Kristinn Hjálmarsson framkvæmdastjóri ParX sendi tilkynningu til kauphallarinnar nú fyrir stundu um að hann hefði selt alla hluti sína í Nýherja. Um var að ræða 10.000 hluti og voru þeir seldir á 10 kr. fyrir hlutinn.

Á heimasíðu Nýherja segir að ParX Viðskiptaráðgjöf ehf. sé sjálfstætt dótturfélag í eigu Nýherja. ParX býður fjölþætta ráðgjöf á sviði stefnumótunar, skipulagsmála, markaðsmála og starfsmannamála, auk annarrar ráðgjafarþjónustu.

ParX á í nánu samstarfi við IBM og er IBM Business Partner. Þannig hefur ParX beinan aðgang að gagna- og ráðgjafarneti IBM samkvæmt sérstökum samningi við IBM Business Consulting Services í Danmörku.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×