Viðskipti innlent

Ákveðið að auglýsa lóðir undir íbúðarhúsnæði í Reykjavík

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti á fundi borgarráðs í dag að auglýsa nokkurn fjölda lóða undir íbúðarhúsnæði. Alls óvíst er að eftirspurn sé eftir þessum lóðum að sögn Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Hann segir eftirfarandi í tölvupósti sem hann sendi fréttastofu:

Samfylkingin vakti sérstaka athygli á því í bókun að meirihlutinn héldi sig enn við verð og aðferðarfræði við úthlutunina sem ákveðin voru árið 2007 og gengu þvert á gefin kosningaloforð meirihlutaflokkanna. Í bókun Samfylkingarinnar sagði:

"Sérstaklega athyglisvert er að lóðaverðið sem meirihlutinn ákvað þegar þennslan stóð sem hæst 2007 skuli halda sér eftir hrun. Hvoru tveggja felur tvímælalaust í sér svik við loforðum Sjálfstæðisflokksins um lóðir á kostnaðarverði. Sjálfstæðisflokkurinn laðaði til sín kjósendur í borgarstjórnarkosningunum með því að lofa ódýrum lóðum fyrir alla. Þá var haft eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni núverandi borgarstjóra að stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú að úthluta lóðum á gatnagerðagjöldum. Nú á enn að halda í fast verð á lóðum sem jafngilda þreföldum eða fjórföldum gatnagerðargjöldum: 4,5 milljónir fyrir hverja íbúð í fjölbýli, 7,5 milljónir fyrir íbúð í parhúsi eða raðhúsi og 11 milljónir fyrir einbýlishúsalóð."

Magnús Þór Gylfason, aðstoðarmaður borgarstjóra, hefur brugðist við því sem Dagur B. Eggertsson segir hér að ofan. Í tölvupósti sem Magnús sendi fréttastofu kemur fram að borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafi óskað eftir eftirfandi bókun á fundi borgarráðs: 

Það er mótsagnakennt að Samfylkingin samþykkti tillöguna um úthlutun atvinnuhúsnæðis en gagnrýnir um leið lóðaverðið á íbúðarlóðum.

Sama aðferð er notuð um verðlagningu á atvinnu- og íbúðalóðum og því erfitt að átta sig á hvað Samfylkingin er að leggja til í málinu. Á árunum 2006 og 2007 lækkaði verð á íbúðarlóðum verulega frá því sem áður var. Mikilvægast í þessu máli er að lóðir séu til úthlutunar í landi Reykjavíkur og það er markmið meirihlutans með þessari afgreiðslu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×