Innlent

Telja sig hlunnfarna um milljarða í Noregi

norskur olíuborpallur REM Offshore er norskt skipafyrirtæki sem sér um að þjónusta olíuborpalla. Tveir stærstu hluthafarnir ætluðu að skipta með sér fjórtán skipum félagsins og sjóði upp á 16 milljarða íslenskra króna.fréttablaðið/afp
norskur olíuborpallur REM Offshore er norskt skipafyrirtæki sem sér um að þjónusta olíuborpalla. Tveir stærstu hluthafarnir ætluðu að skipta með sér fjórtán skipum félagsins og sjóði upp á 16 milljarða íslenskra króna.fréttablaðið/afp

Lögbannskröfu Olympic og Kaldbaks, sem er í eigu Samherja, á hendur norska skipafyrir-tækinu REM Offshore ASA var hafnað af norskum héraðsdómi á miðvikudag. Þegar er búið að kæra úrskurðinn.

Deilurnar snúast um að tveir stærstu eigendur REM hafa gert með sér samning um að skipta á milli sín fjórtán skipum félagsins og sjóði að verðmæti 16 milljarðar íslenskra króna án samþykkis allra hluthafa. Mikið hefur verið fjallað um málið í norskum fjölmiðlum.

„Viðskiptin eru án fordæma og hnoðuð saman af slægustu lögfræðingum Noregs og eru stórsvig milli helstu lagaákvæða um jafnræði hluthafa og minnihlutavernd,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

REM Offshore er þjónustufyrir-tæki fyrir olíuborpalla víða um heim. Tveir stærstu eigendurnir eru Solstad og Åge Remøy, sem jafnframt er stofnandi og stjórnandi REM. Solstad á um 49 prósent af félaginu og ætlar að taka út helming eigna fyrirtækisins að verðmæti yfir 60 milljarðar og borga fyrir með hlutabréfaeign sinni. Åge eignast þá um 77 prósent í fyrirtækinu.

„Þannig fer Åge yfir 40, 50 og 67 prósenta mörkin án þess að gefa öðrum möguleika á að fá út sín hlutfallslegu verðmæti með yfirtökutilboði eins og venjan er með skráð félög,“ segir Þorsteinn.

Uppskiptin fengu ekki samþykki allra hluthafa á aðalfundi heldur einungis rúmlega tveggja þriðju hluta jafnvel þótt um sé að ræða að einn hluthafi taki út um helming eigna félagsins. Kaldbakur, sem á 6,4 prósent hlut í félaginu, gerði á sínum tíma yfirtökutilboð í REM ásamt Åge Remøy. Solstad vildi hins vegar ekki selja og sat áfram með rúmlega 40 prósent hlut.

„Við höfum stutt dyggilega við Åge og vörnuðum því á sínum tíma að keppinauturinn Solstad næði að taka yfir félagið,“ segir Þorsteinn en Kaldbakur fékk í byrjun ársins tilboð um að selja sinn hlut á um 1.000 íslenskar krónur á hlut.

„En við ákváðum að selja ekki af tillitssemi við Åge en hann taldi að Solstad stæði að baki því tilboði. Hins vegar kom á daginn að Åge hafði snúið sér við og samið um uppskipti á félaginu við Solstad. Það er alveg ljóst að Åge hefur svikið Kaldbak,“ segir Þorsteinn. Stig Remøy fer fyrir Olympic, hinum lögbannsbeiðandanum, sem á um 4,3 prósent í REM Offshore.

„Stig stendur algjörlega með okkur, þrátt fyrir að þeir séu bræður. Olympic og Kaldbakur hafa náð góðu samstarfi um þetta verkefni,“ segir Þorsteinn.

vidirp@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×