Erlent

Þótti fagnaðarlætin við heimkomu Lockerbie morðingjans ógeðfelld

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Hart er sótt að Íslandsvininum Gordon Brown þessa dagana.
Hart er sótt að Íslandsvininum Gordon Brown þessa dagana. Mynd/AP

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segir að fagnaðarlætin við heimkomu hryðjuverkamannsins Abdulbaset Ali Mohmed al Megrahi til Líbýu hafa verið einkar ógeðfelld. Hingað til hefur Brown farið eins og köttur í kringum heitan graut og ekki fengist til tjá sig um málið.

Al-Megrahi átti aðild Lockerbie ódæðinu árið 1988 en þá fórust 270 manns um borð í þotu Pan Am flugfélagsins. Honum var sleppt úr fangelsi í Skotlandi í síðustu viku af mannúðarástæðum en hann er dauðvona af völdum blöðruhálskrabbameins. Skömmu síðar var Al-Megrahi fagnað sem þjóðhetju þegar hann kom með heim til Líbýu.

Stjórnarandstaðan og fleiri hafa gagnrýnt Brown og sagt þögn hans æpandi. Hann hefur nú loks tjáð sig um málið og segir það alfarið á ábyrgð skoskra yfirvalda. Hann hafi ekki komið að ákvörðuninni.

Fáir trúa að ríkisstjórn Browns hafi ekki komið að ákvörðunni og þykir málið hið óþægilegasta fyrir stjórnina sem og Verkamannaflokkinn en stuðningur við flokkinn mælist í sögulegi lágmarki í könnun sem birt var í dagblaðinu Guardian í morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×