Viðskipti innlent

FME: Ekki tilkynnt sérstaklega að forstjórinn væri regluvörður

Höskuldur Ásgeirsson, fyrrverandi forstjóri Nýsis.
Höskuldur Ásgeirsson, fyrrverandi forstjóri Nýsis.

Fjármálaeftirlitinu barst ekki sérstök tilkynning um að Höskuldur Ásgeirsson, þáverandi forstjóri Nýsis, hefði verið ráðinn regluvörður félagsins. Stofnunin rannsakar málið. Þetta kemur fram í athugasemd frá FME vegna fréttar á Vísi í gær. Þar var greint frá því að forstjóri Nýsis hefði einnig verið regluvörður félagsins.

Starfi regluvarðar má líkja við innra eftirlit fyrirtækis og því ekki heppilegt að forstjóri gegni því starfi þar sem ætla má að slíkt fyrirkomulag veki spurningar um hæfi regluvarðar og sjálfstæði hans gagnvart stjórnendum félagsins. Því má draga verulega í efa að slíkt fyrirkomulag fullnægði kröfum Fjármálaeftirlitsins og reglum um sjálfstæði og hlutverk regluvarðar.

Í fréttinni frá því í gær segir að Fjármálaeftirlitinu hafi ekki verið kunnugt um nein dæmi þess forstjóri sé jafnframt regluvörður. Í athugasemd FME er bent á að svar stofnunarinnar hafi verið á þá leið að FME hafi ekki verið kunnugt um tilvik þar sem „tilkynnt hefur verið að forstjóri félags sé jafnframt regluvörður þess." Það er að segja, FME vissi af fyrirkomulaginu en Nýsir hafði ekki tilkynnt stofnuninni það sérstaklega.

Reglur um innherjaupplýsingar og viðskipti innherja kveða á um að ráðningu regluvarðar og vararegluvarðar skuli tilkynna til FME. „Innherjalistar eru sendir rafrænt í gegnum skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins, á þar til gerðum eyðublöðum og birtist listi yfir fruminnherja sjálfkrafa á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Aðgangur að skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins er bundinn við aðgang og lykilorð sem úthlutað er starfandi regluverði. Þegar regluvörður lætur af störfum ber því að senda upplýsingar um nýjan regluvörð og óska eftir að stofnaður sé nýr aðgangur fyrir viðkomandi. Jafnframt ber að loka eldri aðgangi," segir í athugasemd FME.

FME segir að í tilfelli Nýsis hafi engin sérstök tilkynning borist vegna ráðningar Höskuldar Ásgeirssonar í starf regluvarðar félagsins og ekki var óskað eftir nýjum aðgangi fyrir regluvörðinn. Umræddur innherjalisti barst Fjármálaeftirlitinu í júlí 2008 en Höskuldur Ásgeirsson lét af störfum hjá Nýsi hf. í nóvember 2008.

Þess má geta að þrátt fyrir að Höskuldur hafi látið af starfi forstjóra Nýsis fyrir nokkru og starfi nú fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Bretlandi er hann enn skráður sem regluvörður félagsins samkvæmt upplýsingum FME.






Tengdar fréttir

Forstjóri Nýsis einnig regluvörður félagsins

Forstjóri Nýsis var regluvörður félagsins. Fjármálaeftirlitinu er ekki kunnugt um nein dæmi um að forstjóri sé jafnframt regluvörður, enda þótt upplýsingar um Nýsisforstjórann liggi á heimasíðu eftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×