Viðskipti innlent

Skyldar Senu til að selja Skífuna ótengdum aðila

Samkeppniseftirlitið leggur þá skyldu á Senu að Skífan verði seld til ótengds aðila. Á meðan söluferli Skífunnar stendur yfir og þar til Skífan verður seld hafa samrunaaðilar fallist á að hlíta tilteknum skilyrðum sem er ætlað að koma í veg fyrir þau samkeppnislega skaðlegu áhrif sem af samrunanum stafar á meðan Skífan er enn í eigu Senu.

Í frétt um málið á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins kemur fram að eftirlitið hefur að undanförnu haft til meðferðar kaup Senu ehf. á Skífunni ehf., en kaup þessi áttu sér stað í lok síðasta árs. Með ákvörðun í dag hefur Samkeppniseftirlitið sett samrunanum skilyrði.

Umrædd skilyrði fela m.a. í sér að skýr rekstrarlegur aðskilnaður sé á milli Senu og Skífunnar og er markmið þeirra m.a. að tryggja að viðskipti milli samrunaaðila á þeim mörkuðum sem málið tekur til, verði eins og um óskylda aðila sé að ræða og að vernda þannig samkeppni á bæði heildsölu- og smásölumarkaði.



Samruninn felur í sér kaup Senu ehf. á 100% hlutafjár Skífunnar ehf. en tilkynning um samrunann barst Samkeppniseftirlitinu þann 21. nóvember 2008. Með bréfi sem Samkeppniseftirlitinu barst þann 16. mars 2009 var tilkynnt um að breytingar hefðu orðið á eignarhaldi Senu með undirritun samnings milli Íslenskrar afþreyingar hf. sem seljanda og Garðarshólma rekstrarfélags ehf. sem kaupanda að félaginu. Með þeim viðskiptum var skorið á tengsl við annan sterkan smásöluaðila, Haga hf., sem m.a. reka Hagkaupsbúðirnar.

Samkeppniseftirlitið taldi að samruninn leiddi til styrkingar á markaðsráðandi stöðu Senu á markaði fyrir útgáfu tónlistar, heildsölu og dreifingu tónlistar og heildsölu tölvuleikja. Áhrifa af þeirri styrkingu á stöðu Senu á þessum mörkuðum myndi jafnframt gæta á þeim mörkuðum sem Skífan starfar á, þ.e. smásölu á tónlist og tölvuleikjum.

Þá taldi Samkeppniseftirlitið að ástæða væri til að ætla að samkeppnishamlandi vandamál gætu komið upp í kjölfar samrunans á þeim mörkuðum sem málið tekur til. Af framangreindum ástæðum myndi draga úr samkeppni á nefndum mörkuðum og var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn væri andstæður markmiðum samkeppnislaga. Í ljósi þess taldi Samkeppniseftirlitið að ástæða væri til að grípa til íhlutunar vegna samrunans sem fælist í ógildingu eða setningu skilyrða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×