Innlent

Loðnuveiði í óvissu sökum makrílgengdar við Íslandsmið

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Makríll er farinn að ganga í gríðarlegu magni á Íslandsmið og vart hefur orðið við þessa fisktegund allt í kringum landið. Loðnustofninn hefur hins vegar verið í lægð og fyrir vikið var loðnuveiði á síðustu vertíð sama og engin. Sé það rétt að makríll éti loðnu í töluverðum mæli þá gæti framtíð loðnuveiðanna verið í enn meiri óvissu en ella hefði verið.

Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir að þessi frétt komi mönnum nokkuð á óvart þar sem loðnan er hánorrænn fiskur sem héldi sig í svölum og köldum sjó en makríllinn væri hlýsjávarfiskur sem gangi yfirleitt ekki að verulegu ráði yfir í sjó sem sé kaldari en 8-9 gráður.

Makríllinn gæti þó farið inn í kaldari sjó. Sveinn segist þó ekki hafa trú á að hann haldi sig þar lengi. Í ljósi þess að makríll hefði ekki gengið í verulegum mæli inn í íslenska landhelgi fyrr en sumarið 2007, væri lítið vitað um hegðunarmynstur hans. Að mati Sveins verða sjómenn og Hafrannsóknarstofnun að hjálpast að við að rannsaka hegðunarmynstur Makrílsins.

Af síldveiðum skipa HB Granda er annars það að segja að Faxi RE kom til Eskifjarðar í nótt með fullfermi og Lundey NS kom í gær með 1.310 tonna afla til Vopnafjarðar. Ingunn AK er nú að veiðum með Þorsteini ÞH.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×