Erlent

Norðmaður í sjokki

Óli Tynes skrifar
Farmiðinn hækkaði um 77 prósent.
Farmiðinn hækkaði um 77 prósent.

Norskum manni svelgdist á þegar hann fékk reikning fyrir sex farseðla sem hann keypti á Icelandair.is fyrir rétt rúmu ári.

Hann borgaði náttúrlega með kreditkorti sínu og farmiðarnir áttu að kosta um 15.500 norskar krónur.

Það gerir um 340 þúsund íslenskar krónur á gengi dagsins í dag. Sex dögum síðar þegar farseðlarnir voru dregnir af reikningi hans var upphæðin hinsvegar orðin rúmar 27 þúsund norskar krónur.

Það gerir rétt rúmlega 600 þúsund krónur íslenskar og er hækkun um 77 prósent. Eins og menn kannski muna var dálítið flökt á íslensku krónunni fyrir um ári.

Norska blaðið Aftenposten, sem skýrir frá þessu, segir að Norðmaðurinn hafi leitað til kærunefndar banka.

Líklega hefur Norðmanninum aftur svelgst á þegar hann fékk svar kærunefndarinnar. Hún vísaði máli hans frá með vísan til skilmála númer þrjú í kortasamningnum.

Þar segir að það sé gengisskráning á gjalddaga sem miðað sé við en ekki dagsetning kaupanna. Og það sem verra er það er miðað við gengi á gjaldmiðli notendalandsins gagnvart norsku krónunni.

Kærunefndin sagði að maðurinn hefði sjálfur tekið þessa gengisáhættu og útkoman hefði allt eins getað verið honum í hag.

Eins og menn kannski muna líka hækkaði norska krónan nokkuð gagnvart þeirri íslensku fyrir ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×