Innlent

Skammur tími til að endurvekja tiltrú erlendra fjárfesta

Tíminn sem íslensk stjórnvöld hafa til að endurvekja tiltrú erlendra fjárfesta á íslensku efnahagslífi er stuttur að mati hagfræðiprófessors. Landsvirkjun gæti að óbreyttu lent í verulegum vandræðum með endurfjármögnun í lok næsta árs.

Aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendum lánsfjármörkuðum hefur verið nánast lokað frá því bankarnir hrundu síðasta haust.

Tiltrú erlendra fjárfesta á íslensku efnahagslífi er í lágmarki og endurspeglast meðal annars í háu skuldatryggingaálagi.

Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskólann í Reykjavík, segir það forgangsatriði að koma bankakerfinu í eðlilegt horf til að Íslendingar geti endurunnið glatað traust á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ríkisstjórnin hafi ekki langan tíma til að ganga í það verk.

„Nægir að benda á í því samhengi að Landsvirkjun hefur um það bil eitt og hálft ár til stefnu núna til að endurfjármagna sín lán. Og á þeim tíma verðum við að vera búin að ná verulegum árangri í því auka traust á Íslandi og lækka þetta skuldatryggingaálag sem sett er núna af erlendum aðilum á ríkissjóð Íslands. Það endurspeglar mjög mikla vantrú og efasemdir um að íslenska ríkið nái að standa við skuldbindingar sínar," segir Friðrik Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×