Viðskipti innlent

Mikilvægum þætti endurreisnar að ljúka

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Höfuðstöðvar Kaupþings, sem nú er orðinn Arion banki við Borgartún í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Kaupþings, sem nú er orðinn Arion banki við Borgartún í Reykjavík.
„Ég fagna þessari niðurstöðu og tel mikilvægt að málið sé komið í höfn,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þegar í gær var kynnt samkomulag ríkisins og skilanefndar Kaupþing um framtíðareignarhald á Arion banka (sem áður nefndist Nýja-Kaupþing).

„Samkomulagið er hagstætt fyrir báða aðila,“ bætti hann við.

Samkvæmt samkomulaginu eignast kröfuhafar Kaupþings 87 prósenta hlutafjár í Arion banka, en ríkið 13 prósent. Þá leggur skilanefndin fram 66 milljarða króna í stað ríkisins og endirgreiðir þá upphæð af þeim 72 milljörðum króna sem ríkið hafði lagt bankanum til í eigið fé.

Fram kom í máli Steingríms á fundinum í gær að með þessu samkomulagi væri ljóst að ríkið sparaði sér mikla fjárbindingu og kostnað með því að hafa nú náð samkomulagi um framtíðareignarhald tveggja af þremur stærstu viðskiptabönkunum.

„Þetta er mikilvægur þáttur í endurreisninni sem hér á sér stað,“ sagði Steingrímur og upplýsti um leið að viðræður um Landsbankann stæðu nú yfir í Lundúnum. Hann sagði ráð fyrir því gert að endurskipulagning bankanna verði um garð gengin fyrir áramót.

Í sameiginlegri tilkynningu kemur fram að skilanefnd Kaupþings telji að virkt eignarhald í Arion banka muni hámarka verðmæti þeirra eigna sem fluttar voru á milli bankanna í október 2008.

Skilanefnd Kaupþings skipar fjóra stjórnarmenn í nýja stjórn Arion banka og ríkið einn, en bankinn verður sjálfstætt starfandi dótturfélag Kaupþings. Hlutafé er rúmlega 72 milljarðar króna og eiginfjárþáttur A er 12 prósent, samkvæmt tilkynningu.

Í samkomulaginu við ríkið felst einnig að ríkið leggi Arion banka til víkjandi lán í erlendri mynt sem hækki eiginfjárgrunn hans í 16 prósent.

Skilanefndin og ríkið skrifuðu í byrjun september undir samninga sem fólu í sér tvo möguleika fyrir skilanefnina, annars vegar að fara þá leið sem nú hefur verið farin og hins vegar að taka ekki þátt í fjármögnun bankans, en eiga þess í stað virkan kauprétt að hlutafé á árunum 2011 til 2015.

Samkomulag skilanefndarinnar og ríkisins er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Ný stjórn bankans verður skipuð þegar samþykki þeirra liggur fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×