Viðskipti innlent

Saksóknari: Baldur staðinn að ósannindum

Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, sagði í málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag, vegna kröfu Baldurs Guðlaugssonar um að rannsókn á hendur honum verði felld niður, að Baldur hefði verið staðinn að ósannindum.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag þar sem ítarlega er fjallað um málflutninginn í máli Baldurs sem fram fór fyrr í vikunni. Fram kemur að í skýrslutöku yfir Jónínu S. Lárusdóttur, ráðuneytisstjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, sem Björn vitnaði til í málflutningi, sagði hún að Baldur hefði setið fund með sér ásamt bankastjórum Landsbankans, Sigurjóni Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, 13. ágúst í fyrra.

Á fundinum lýstu þeir, „í algjörum trúnaði", eins og Björn komst að orði, því yfir að Landsbankinn gæti lent í vandræðum þar sem bankinn gæti ekki orðið við kröfum breska fjármálaeftirlitsins um færslu á Icesave-reikningum Landsbankans yfir í breskt dótturfélag.

Björn sagði síðan: „Þetta sýnir að Baldur sagði ósatt um að hann hefði aldrei átt samskipti við stjórnendur Landsbankans, og þá sýnir þetta einnig að hann bjó yfir upplýsingum um stöðu Landsbankans sem sýndi alvarlega stöðu hans á þessum tíma."

Í Viðskiptablaðinu segir: „Þá vitnaði Björn einnig til þess að Baldur hefði setið fund í Seðlabankanum 31. júlí, þar sem staða íslensku bankanna var til umræðu. Björn vitnaði sérstaklega til þess að Jónas Fr. Jónsson, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), hefði látið bóka að Landsbankinn hefði þrjá mánuði til þess að uppfylla skilyrði breska fjármálaeftirlitsins vegna Icesave.

Þá hefði Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, látið bóka að breska fjármálaeftirlitið væri að vinna góða vinnu við að lágmarka tjón tryggingasjóðsins íslenska. Baldur sjálfur lét síðan bóka sérstaklega, að það gæti orðið „banabiti bankanna" ef upplýsingar um stöðu þeirra, sem var til umfjöllunar á fundinum, yrðu á allra vitorði. „Banabiti," ítrekaði Björn.

Bolli Þór Bollason, sem var ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Geirs H. Haarde, var formaður fyrrnefnds samráðshóps. Hann hefur verið yfirheyrður af sérstökum saksóknara vegna málsins og vitnaði Björn til skýrslu sem hann gaf í málflutningi sínum. Baldur hafði í bréfi til FME nefnt að hann hefði hringt í Bolla Þór degi áður en hann seldi hlutabréfin og tilkynnt honum um að hann ætlaði að selja bréf sín. Þetta hefði hann gert þar sem Bolli Þór var formaður hópsins.

Björn sagði Bolla Þór hafa neitað þessu við skýrslutöku og sagt Baldur hafa hringt í sig eftir að hann seldi bréfin. „Bolli Þór svaraði því til að þetta hefði verið óheppilegt, hann hefði viljað fá upplýsingar um þetta áður en viðskiptin áttu sér stað," sagði Björn."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×