Viðskipti innlent

Ísland stefnir í greiðsluþrot

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Erlendar skuldir Íslands eru að nálgast þolmörk þau sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti í nóvember. Heildarskuldir íslenska þjóðarbúsins og gömlu bankanna umfram eignir eru nærri sexþúsund milljarðar króna - það er á við átta Icesavesamninga. Við stefnum í greiðsluþrot segir Gunnar Tómasson hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður AGS.

Fréttastofa sagði frá því í byrjun júlí að skuldastaða Íslands væri öllu verri en gert var ráð fyrir eftir bankahrunið - þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti að lána Íslandi. Í lánasamningnum sem gerður var milli AGS og íslenska ríkisins kom fram að ef erlendar skuldir færu upp í 240% af landsframleiðslu þá gæti landið ekki staðið undir skuldabyrði sinni.

Nýjar tölur Seðlabankans - sem bankinn frestaði að birta - dregur ekki upp bjarta mynd af skuldastöðu landsins og sýnir svo ekki verði um villst að skuldastaðan er farin að nálgast umrædd þolmörk ískyggilega. Erlendar skuldir þjóðarbúsins í dag eru röskir 14.300 milljarðar króna - að meðtöldum skuldum þrotabúa bankanna. Gömlu bankarnir þrír sem nú eru í greiðslustöðvun eiga 11.020 milljarða af heildarskuldunum, og því eru brúttóskuldir íslenska þjóðarbúsins 3323 milljarðar króna.

Þetta er stjarnfræðileg tala og til að gera hana viðráðanlegri má deila henni niður á þjóðina. Hvert mannsbarn hér skuldar því í erlendri mynt 10,4 milljónir króna - að frádregnum skuldum bankanna. Til að kanna hversu nálægt við erum komin að þolmörkum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er brúttóskuldunum deilt í áætlaða landsframleiðslu og niðurstaðan er 233%.

Gunnar Tómasson hagfræðingur starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í aldarfjórðung. Hann segir að tölur Seðlabankans sýni að Íslendingar séu komnir á tæpasta vað með skuldastöðu þjóðarbúsins við Ísland. Íslendingar séu mjög nálægt því að stefna í greiðsluþrot.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×