Viðskipti innlent

Síðasti áfanginn í greiðslustöðvun Stoða - heimilað að leita samninga

Héraðsdómur Reykjavíkur veitti í dag Stoðum heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa sína. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir að um sé að ræða síðasta áfangann í greiðslustöðvunarferli Stoða.

Stoðir hafa verið í greiðslustöðvun síðastliðna sex mánuði, síðan stærsta eign félagins, 32% eignarhlutur í Glitni að verðmæti 75 milljarða króna, varð verðlaus. Eignir Stoða eru nú metnar á um 70-80 milljarða króna og hafa lækkað um u.þ.b. 160 milljarða króna sl. sex mánuði.

„Nú tekur við við það ferli sem fyrirtækið óskaði eftir fyrir helgi. Þetta er í samræmi við vilja lánadrottnanna sem studdu okkur og tóku þátt í þessum seinasta áfanga í greiðslustöðvuninni," segir Júlíus Þorfinsson upplýsingafulltrúi Stoða.

Lánardrottnar félagsins, sem fara með 86% af fjárhæð krafna á hendur félaginu, studdu að Stoðir myndu vinna áfram að fjárhagslegri endurskipulagningu sem meðal annars fól í sér að félaginu yrði veitt heimild til að leita nauðasamninga. Við þeirri beiðni varð héraðsdómur í dag eins og áður sagði.

Þorsteinn Einarsson hjá Forum lögmönnum hefur verið skipaður umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum félagsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×