Viðskipti innlent

Telur að stýrivextir lækki um 0,5 til 1 prósentustig

Greining Íslandsbanka telur að peningastefnunefnd ákveði að lækka vexti bankans þann 5. nóvember næstkomandi. Reiknar greiningin með því að lækkunin verði með þeim hætti að vextir í sjö daga veðlánum til innlánsstofnana verði lækkaðir um 0,5 til 1,0 prósentu, þ.e. úr 12% niður í 11,0-11,5%. Þetta eru þeir vextir sem undir venjulegum kringumstæðum teljast stýrivextir bankans.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að greiningin telur einnig að nefndin ákveði að lækka innlánsvexti bankans, sem við aðstæður sem nú eru á fjármálamarkaði eru hinir raunverulegu stýrivextir og hinn raunverulegi mælikvarði á aðhald peningastefnunnar, um 0,25-0,50 prósentur þ.e. úr 9,5% í 9,0-9,25%.

Í fréttatilkynningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í gær vegna ákvörðunar stjórnar sjóðsins segir að framþróun í uppbyggingu fjármálakerfisins og fjármálum hins opinbera ætti að styrkja tiltrú og opna rými fyrir hóflega lækkun vaxta.

Ekki verður annað séð en að með þessu sé sjóðurinn að segja að með þann ávinning í farteskinu sem náðst hefur í uppbyggingu fjármálakerfisins á síðustu mánuðum og þeim ákvörðunum sem tekin hafa verið í ríkisfjármálum ætti að vera svigrúm fyrir lækkun stýrivaxta Seðlabankans nú.

Rétt er að rifja upp að á síðasta fundi peningastefnunefndarinnar vildi Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, lækka vexti en þá náði sú tillaga bankastjórans ekki fram að ganga vegna andstöðu annarra nefndarmanna.

Tillaga hans um að draga úr peningamagni í umferð og draga þannig millibankavexti upp og nær stýrivöxtum bankans var hins vegar samþykkt og hefur haft tilætluð áhrif. Aðhald peningastefnunnar hefur þannig aukist. Einnig hefur verðbólgan minnkað, raunstýrivextir bankans hækkað af þeim sökum og aðhald peningastefnunnar aukist á þann mælikvarða einnig. „Má vera að peningastefnunefndin líti á þetta tvennt þannig að aukið svigrúm sé nú fyrir lækkun stýrivaxtavaxta bankans," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×