Innlent

Kennslustundum verði fækkað um 3 til 4 í viku

Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson

Sveitarfélögin vilja að kennslustundum í grunnskólum verði fækkað um þrjár til fjórar í hverri viku. Þetta er talið geta sparað 1,2 til 1,4 milljarða króna á ári í rekstri grunnskólanna.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitar­félaga, segir að sveitarfélögin hafi nýlega kynnt menntamálaráðherra hugmyndir um breytingar sem gera þurfi á lögum til að auðvelda sveitar­félögum að hagræða í rekstri skólanna. Hugmyndir um að fækka kennslustundum í grunnskólum vegi þar langþyngst.

Um tíma höfðu sveitarfélögin áhuga á að stytta skólaárið og fækka kennsludögum um tíu á hverju ári. Horfið var frá því þar sem bundið er í kjarasamninga kennara að kennt sé í 180 daga á hverju skólaári. Vegna þess er talið einfaldara að breyta kennslustundafjöldanum.

Halldór segir að gangi hugmyndirnar eftir verði fækkunin tímabundin. Stefnt sé á að fjöldinn fari í fyrra horf þegar betur árar. Eins og efnahagsástandið er sé hins vegar nauðsynlegt að sveitarfélögin hafi svigrúm til þess að hagræða í rekstri skólanna. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×