Viðskipti innlent

Athugasemd frá formanni skilanefndar SPRON

Hlynur Jónsson formaður skilanefndar SPRON.
Hlynur Jónsson formaður skilanefndar SPRON.

Hlynur Jónsson formaður skilanefndar SPRON hefur gert athugasemd við fréttaflutning Stöðvar 2 og Vísis frá því í gær. Athugasemd Hlyns má sjá hér að neðan.

1. Í frétt á www.visir.is segir að Hlynur Jónsson, formaður skilanefnar SPRON hafi ekki viljað tjá sig um málið. Þetta er rangt, sbr. eftirfarandi:

a. Klukkan 14:10 hafði Sigríður Mogensen, fréttamaður, samband við undirritaðan símleiðis og kvaðst vilja spyrja um sölu skilanefndar SPRON hf. á tveimur fyrirtækjum. Fréttamaðurinn hafði óljósar hugmyndir um erindið og vissi ekki nákvæmlega um hvað hún væri að spyrja. Ég upplýsti hana um að skilanefnd hefði ráðið ráðgjafafyrirtækið ParX til þess að aðstoða sig við málið sem væri þess eðlis að það yrði ekki útskýrt í stuttu símtali og óskaði eftir að hún myndi senda tölvupóst og ég myndi sjá til þess að málið yrði skoðað og póstinum svarað. Bað ég Sigríði að senda póstinn bæði á netfang mitt hlynur@spron.is og einnig á skilanefnd@spron.is , þannig að aðrir skilanefndarmenn gætu brugðist við þar sem ég var á fundi úti í bæ. Tölvupósturinn barst frá Sigríði kl. 14:56, einungis á mitt netfang.

b. Klukkan 15:39 hringdi Sigríður aftur og upplýsti ég hana um að ég væri á fundi úti í bæ, en erindið yrði skoðað og því svarað. Stuttlega gerði ég henni grein fyrir að forkaupsréttarákvæði væru í tilteknum samningum sem málið varðaði, auk þess sem aðrir aðilar kæmu að málinu.

c. Klukkan 17:53 hringdi ég í Sigríði, eftir að hafa rætt við ráðgjafa frá ParX og þann aðila í skilanefnd Spron sem hefur haldið utan um samskipti við ParX og kynnt sér málið best. Kvaðst ég vera búinn að afla ítarlegra upplýsinga um málið og væri tilbúinn að skýra það út og svara spurningum sem hún kynni að hafa. Fljótlega varð ljóst að fréttamaðurinn hafði ekki áhuga á því að kynna sér málið og bar við tímaskorti, hún væri að klippa fréttina og hefði ekki tíma til þess að hlusta á miklar útskýringar. Ég gerði henni ljóst að málið hefði aðdraganda og yrði ekki útskýrt í einni setningu eins og spurning hennar bauð upp á. Umfjöllunin yrði villandi og úr samhengi ef hún myndi ekki setja sig inn í málið. Sigríður sat fast við sinn keip og bar við tímaskorti.

2. Klukkan 19:30 birtist umfjöllun um þetta mál sem fyrsta frétt. Var yfirskrift fréttarinnar og umfjöllunin villandi eins og við mátti búast. Fréttin bar öll þann brag að vinnubrögð skilanefndar væru ófagleg og tortryggileg.

3. Fréttin birtist einnig á www.visir.is . Auk þess að gefa ófullnægjandi mynd af málinu voru beinar rangfærslur í umfjölluninni. Undir mynd var tekið fram að formaður skilanefndar hefði ekki viljað tjá sig, sem er rangt. Í upphafi umfjöllunarinnar var því haldið fram að skilanefnd hafi sent völdum aðilum tölvupóst og óskað tilboða í hugbúnaðarfyrirtæki. Þetta er rangt. Eins og fréttamanninum var bent á leitaði skilanefnd til ráðgjafafyrirtækisins ParX um ráðgjöf vegna samnings sem SPRON hafði gert við tiltekið fyrirtæki, fyrir skipun skilanefndar, um yfirtöku á hugbúnaðarleyfi sem SPRON hafði frá franska fyrirtækinu Welcome Realtime. Leyfið er og hefur verið í vanskilum og eigandi hugbúnaðarins, Welcome Realtime hefur hótað að afturkalla leyfið. Í fréttinni er þess hvergi getið að skilanefnd hafi falið ráðgjafafyrirtæki að vinna að málinu með það að markmiði að hámarka þau verðmæti sem kunna að vera í þessu leyfi og kanna hvort aðrir aðilar kynnu að hafa áhuga á þessum hugbúnaði. Í umfjöllun Sigríðar er einnig fullyrt að skilanefnd Spron hafi tekið ákvörðun um að selja hugbúnaðarfyrirtækið Lax Solutions. Þetta er einnig rangt. Í tengslum við athugun ParX á möguleikum til þess að gera verðmæti úr XLS kerfinu franska, kom í ljós að áhugasamir aðilar höfðu einnig áhuga á að kynna sér Lax Solutions kerfið. Þar af leiðandi leitaði ParX einnig eftir verðhugmyndum í hlut Spron í Lax Solutions. Það felur hins vegar ekki í sér að nein ákvörðun hafi verið tekin um sölu á þessu stigi.

4. Undirritaður hefur fullan skilning á því brýna samfélagslega hlutverki fjölmiðla að veita stjórnvöldum og fyrirtækjum aðhald í störfum sínum. Þessu hlutverki fylgir hins vegar mikil ábyrgð, sem krefst þess að fjölmiðlar hafi til að bera góða dómgreind og viðhafi ábyrg og fagleg vinnubrögð í störfum sínum.

5. Til þess að gæta allrar sanngirni er rétt að taka fram að Sigríður hefur áður unnið fréttir er varða skilanefnd SPRON og vann hún þær af stakri fagmennsku og lagði sig fram um að setja sig vel inn í mál áður en umfjöllun var birt.

Skilanefnd SPRON hefur ávallt lagt áherslu á að þjónusta fjölmiðla eins vel og kostur er og hefur brugðist hratt og vel við fyrirspurnum, þrátt fyrir að álag sé oft mikið. Það eru því vonbrigði að sjá umfjöllun af þessu tagi, þar sem reynt er að gera vinnubrögð skilanefndar tortryggileg og því bragði beitt að halda því ranglega fram að skilanefnd hafi ekki viljað tjá sig.

Loks vil ég árétta að hvað sem þessu einstaka atviki líður vill skilanefnd SPRON hf. að sjálfsögðu eiga gott samstarf um ábyrgan fréttaflutning við fréttastofu Stöðvar 2 hér eftir sem hingað til.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×