Viðskipti innlent

FT spyr hvort ESB-aðild sé of dýrkeypt fyrir Ísland

„Tilhugsunin um aðild að Evrópusambandinu er notaleg trygging þegar illa árar. Þegar eyjarskeggjar standa frammi fyrir skilmálum aðildar og gjaldinu sem greiða þarf fyrir gæti svo farið að þeir hrökkluðust til baka." Þannig lýkur grein í vefútgáfu Financial Times (FT) í gær. Þar er fjallað um stöðu Íslands gagnvart ESB eftir nýafstaðnar alþingiskosningar.

Fjallað er um málið á vefsíðu LÍÚ. Þar er bent á að FT segir í greininni að Sviss, Noregur og Ísland hafi jafnan verið efst á blaði yfir þau lönd sem íbúar Evrópusambandsins hafi viljað sjá innan ESB.

Þessar þrjár þjóðir hafi hins vegar til þessa sýnt takmarkaðan áhuga á aðild. Sviss aldrei sótt um og Norðmenn tvívegis hafnað aðildarsamningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hugsanleg aðild Íslands hafi í raun ekki verið uppi á borðinu fyrr en nú.

Í greininni er því velt upp hvort Íslendingar væru tilbúnir að deila fiskimiðunum í skiptum fyrir traustan gjaldmiðil. FT bendir á að núverandi ríkisstjórn sé klofin í afstöðu sinni til aðildar að ESB. Þó svo færi að farið yrði í aðildarviðræður kynni svo að fara að Íslendingar fylgdu í fótspor Norðmanna og höfnuðu aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×