Viðskipti innlent

Fjárfestingar í nýju íbúðahúsnæði minnka um helming

Fjárfesting í nýju íbúðarhúsnæði hefur dregist hratt saman undanfarið. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam hún 12,5 milljörðum kr. og hafði þá dregist saman um 45% á föstu verði frá sama ársfjórðungi fyrir ári samkvæmt tölum sem Hagstofan birti nýlega.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að fjárfesting var á fyrri hluta þessa árs ríflega 3% af landsframleiðslu en þegar mest var um að vera í íbúðafjárfestingunni í síðustu uppsveiflu var hlutfall þetta um 7%.

 

Reikna má með því að framhald verði á þessari þróun á næstunni. Þannig spáir Seðlabankinn því að samdrátturinn í íbúðafjárfestingu verði 47% í ár og 14% á næsta ári. Fjármálaráðuneytið spáir hins vegar 60% samdrætti í íbúðafjárfestingu í ár og 5% á næsta ári.

 

Munurinn á spánum felst aðallega í tímasetningu samdráttarins en spárnar eru samhljóða um að framundan er meiri samdráttur í nýfjárfestingum í íbúðarhúsnæði. Mikil lækkun á kaupmætti heimilanna, aukið atvinnuleysi, fall krónunnar, erfið skuldastaða margra heimila, verulegt framboð nýbygginga og lækkun íbúðaverðs eru meðal þeirra þátta sem orsaka þessa þróun.

 

Væntingar almennings um að efnahagsástandið eigi frekar eftir að versna á næstunni dregur síðan enn úr vilja til nýfjárfestinga í íbúðarhúsnæði. Fjárfestingin í íbúðahúsnæði mun ekki taka við sér fyrr en árið 2011 að mati Seðlabankans og Fjármálaráðuneytisins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×