Viðskipti innlent

Árni Matt: Ræddum við japönsku fjárfestana um áramótin

Árni Mathiesen fyrrverandi fjármálaráðherra segir að hann hafi átt viðræður við japanska fjárfesta um hugsanleg kaup þeirra á banka og orkufyrirtækjum hérlendis í kringum síðustu áramót. Fjárfestarnir voru tilbúnir til að setja allt að einum milljarði dollara eða um 125 milljörðum kr. inn í íslenska hagkerfið.

Töluvert hefur verið fjallað um málið á RUV og þar hefur Ragnar Önundarson aðstoðarmaður japönsku fjárfestanna m.a. sagt að erindi þeirra hafi ekkert verið sinnt innan stjórnkerfisins. Núverandi stjórn fjármálaráðuneytisins kannast ekkert við málið en Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri segir að verið sé að kanna það.

Árni Mathiesen segir að hann hafi fyrst hitt japönsku fjárfestanna á fundi seinnipart desember í fyrra og svo aftur í janúar. „Við gerðum þeim grein fyrir að þar sem þeir vildu kaupa eigur af hinu opinbera giltu um það ákveðnar reglur og spurningin væri í hvaða ferli ætti að setja málið eins og til dæmis einkavæðingarferli," segir Árni. „Mér virtist eins og áhugi þeirra á málinu dofnaði við það."

Árni segir að á þessum tíma, það er eftir áramótin, hafi forystumenn beggja stjórnarflokkanna, Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, átt við veikindi að stríða og því erfitt að koma málinu áfram.

„Þarna var um stórt mál að ræða fyrir íslenska hagkerfið og því áhugi af okkar hálfu að koma því í gegn," segir Árni. „Hinsvegar verður að gera slíkt eftir réttum reglum og þeim ferlum sem gilda um slíkar fjárfestingar. Málið var hinsvegar á byrjunarstigi þegar stjórnin féll og mínum afskiptum af því lauk."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×