Viðskipti innlent

Endurfjármögnun Íslandsbanka og Nýja Kaupþings tryggð

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Frá hluthafafundi Íslandsbanka í dag.
Frá hluthafafundi Íslandsbanka í dag.
Ríkisstjórn Íslands hefur tryggt fjármögnun Íslandsbanka og Nýja Kaupþings, en hún var samþykkt á hluthafafundum í dag að því er fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Landsbankinn þarf hins vegar meiri tíma.

Fjármögnunin er í samræmi við fyrirætlanir sem greint var frá 20. júlí og uppgjörssamninga sem ríkið gerði við skilanefndir Glitnis og Kaupþings sem nú er lögð lokahönd á.

Eigið fé Íslandsbanka verður 65 milljarðar. Það er öllu meira en kynnt var í júlí, en upphaflega átti eiginfjárframlag Íslandsbanka að vera 60 milljarðar.

Eigið fé Nýja Kaupþings verður 72 milljarðar, sem sömuleiðis er meira en upphaflega var lagt upp með, eða sem nemur tveim milljörðum.

Eiginfjárframlagið er í formi ríkiskuldabréfa og á að tryggja báðum bönkum 12 prósenta eiginfjárhlutfall.

Ríkisstjórnin og skilanefnd Landsbankans hafa hins vegar farið fram á við Fjármálaeftirlitið að fá lengri tíma til þess að ná niðurstöðu um endurfjármögnun og greiðslur fyrir eignir sem færðar voru úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×