Viðskipti innlent

Yfirtökunni á hlutabréfum 1998 ætlað að tryggja hagsmuni Kaupþings

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Yfirtaka Kaupþings á hlutabréfum 1998 ehf. er liður í því að tryggja hagsmuni bankans í því úrlausnarferli sem enn stendur yfir.

Í fréttatilkynningu frá Kaupþingi segir að í öllum skuldamálum fyrirtækja sem komi til skoðunar í bankanum sé fylgt verklagsreglum bankans. Í verklagsreglunum segi m.a. að bankinn leggi áherslu á samstarf við eigendur og stjórnendur í vinnu við endurskipulagningu fyrirtækja. Þannig sé eigendunum gefið tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum að lausn á vandamálum fyrirtækja sinna. Til að gæta jafnræðis telji bankinn mikilvægt að nálgast öll mál með þessum hætti.

„Þótt eigendur fyrirtækja fái tækifæri til að leggja fram hugmyndir að lausn á skuldavanda félaga sinna er ljóst að þær þurfa að vera raunhæfar. Þær þurfa þannig að standast samanburð við aðra möguleika í stöðunni og vera í takt við kröfu bankans um að endurheimta sem mest af verðmætum sínum. Ekki er komin niðurstaða í máli 1998 og ítrekar bankinn að allar tölur sem nefndar hafa verið í fjölmiðlum eru úr lausu lofti gripnar," segir í tilkynningu frá Kaupþingi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×