Viðskipti innlent

Segir fráleitt að bankaleynd ráði umræðum um hrunið

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra. Mynd/Anton Brink
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, segir enn sannast hversu fráleitt er að telja bankaleynd eiga að ráða umræðum um aðdraganda hruns íslensku bankanna í dagbókarfærslu á heimasíðu sinni.

Sýslumaðurinn í Reykjavík úrskurðaði lögbann á umfjöllun RÚV um lánveitingar bankans í gær á grundvelli bankaleyndar að kröfu skilanefndar Kaupþings og Nýja Kaupþings.

Hann gagnrýnir Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra, og Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra, fyrir að standa vörð um hina sagnfræðilegu bankaleynd.

„Í krafti hennar krefst Kaupþing þess, að lánabók þess fyrir hrun sé lokuð og fjölmiðlar fái ekki að segja fréttir úr henni," segir Björn.

Í niðurlagi pistils síns segir hann fráleitt að láta eins og atburðir í aðdraganda hrunsins eigi að lúta lögmálum eðlilegra bankaviðskipta; algjör þáttaskil hafi orðið með hruninu í október á síðasta ári.

Pistil Björns má sjá hér, en þar gerir hann einnig að umtalsefni grein Evu Joly í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×