Viðskipti innlent

Nýir fjárfestar kaupa meirihluta í CAOZ

Títan fjárfestingafélag, Hilmar Gunnarsson og Bru II Venture Capital Fund hafa í sameiningu keypt meirihluta hlutafjár í tölvuteiknimyndafyrirtækinu CAOZ, sem nú vinnur að framleiðslu tölvuteiknimyndarinnar Þór - í Heljargreipum.

Í tilkynningu segir að nokkrir eldri hluthafar ásamt lykilstarfsmönnum tóku einnig þátt í hlutafjáraukningunni. Auk þess að fjárfesta í félaginu þá leggja fjárfestarnir til hluta af verkefnafjármögnun myndarinnar, sem er nú fjármögnuð að fullu. Heildarverðmæti samnings þessa nemur um 300 milljónum króna.

Framleiðslukostnaður myndarinnar um Þór er um 7,2 milljónir Evra eða sem nemur um 1,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi og er Þór því stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hefur verið í hérlendis til þessa. Myndin kemur á markað um heim allan fyrri hluta ársins 2011.

"Hjá CAOZ er frábært starfsfólk sem hefur byggt upp mikla þekkingu á tölvuteiknimyndagerð í gegnum árin og stendur að okkar mati mjög framarlega á sínu sviði", segir Skúli Mogensen, stjórnarformaður Títan fjárfestingafélags. "Það verður mjög spennandi að taka þátt í uppbyggingu félagsins á næstu árum."

"Við sjáum mikla möguleika í CAOZ til framleiðslu tölvuteiknimynda og afleiddra vara fyrir alþjóðlegan markað og ætlum okkur að byggja upp tölvuteiknimyndafyrirtæki á heimsmælikvarða hér á Íslandi", segir Hilmar Gunnarsson sem bætir við að þeir Skúli muni taka virkan þátt í störfum félagsins.

"Verkefni Caoz skapa umtalsvert streymi gjaldeyris inn í landið og eru félög af þessu tagi mjög mikilvæg fyrir uppbyggingu atvinnulífs framtíðarinnar. Aðkoma Títan og Hilmars að félaginu er því mikil lyftistöng", segir Sigurður I. Björnsson, stjórnarmaður í Bru II Venture Capital Fund.

Þór - í Heljargreipum er fyrsta íslenska tölvuteiknimyndin í fullri lengd og hefur verið í þróun og framleiðslu hjá CAOZ um nokkurra ára skeið. Kvikmyndin er byggð á Norrænni goðafræði og segir frá baráttu Þórs og hamarsins Mjölnis við jötna og Hel - hina illu drottningu Undirheima. Myndin er gamansöm ævintýramynd fyrir alla fjölskylduna og eru persónur myndarinnar og umhverfi byggðar á lýsingum í Snorra Eddu.

Handritið er skrifað af Friðriki Erlingssyni og leikstjórn er í höndum þeirra Óskars Jónassonar og Gunnars Karlssonar, sem einnig hefur hannað allar persónur og myndræna umgjörð myndarinnar. Myndin er framleidd af Hilmari Sigurðssyni og Arnari Þórissyni hjá CAOZ.

"Það er sérstaklega ánægjulegt að fá til liðs við okkur svo öfluga og reynslumikla fjárfesta og þannig renna enn styrkari stoðum undir þetta framsækna sprotafyrirtæki" segir Arnar Þórisson, stjórnarformaður CAOZ. "Nú þegar er kominn í gang stærsti og mannfrekasti hluti framleiðsluferilsins á Þór og mun félagið auglýsa eftir fjölda starfsfólks á næstunni."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×