Skoðun

ESB eykur efnahagslegt öryggi

Baldur Þórhallsson skrifar

Veigamesta verkefni ráðamanna er að tryggja öryggi borgaranna. Íslenskir ráðamenn hafa náð að tryggja borgaralegt og hernaðarlegt öryggi með aðild að NATO og Schengen og tvíhliða öryggis- og varnarsamningum við nágrannaríki. Íslenskir ráðamenn hafa hins vegar brugðist skyldum sínum að tryggja efnahagslegt öryggi. Þetta sinnuleysi hefur leikið íslensk heimili og fyrirtæki grátt.

Það er sérstaklega mikilvægt fyrir borgara smærri ríkja að hafa tryggt efnahagslegt og pólitískt öryggi. Tryggt skjól hefur aldrei verið mikilvægara en nú á tímum síaukinnar alþjóðavæðingar sem stýrist að stórum hluta af flæði fjármagns. Ráðamenn nær allra Evrópuríkja hafa leitað í efnahagslegt skjól ESB. Þannig hefur þeim tekist að auka hið dagsdaglega öryggi heimila og fyrirtækja sem og draga úr þeim áföllum sem þau verða fyrir vegna heimskreppna sem reglulega dynja yfir.

ESB veitir margs háttar efnahagslegt öryggi. Evran veitir veigamikla tryggingu gegn óstöðugum gjaldmiðli lítils myntsvæðis. Sameiginlegur markaður og mynt eykur samkeppni og dregur verulega úr viðskiptakostnaði. Það kemur sér sérstaklega vel fyrir lítil samfélög þar sem erfitt er að koma á virkri samkeppni. Efnahagslegt öryggi ESB felur þannig í sér í lægra matvælaverð, lægra vöruverð almennt, lægri vexti og fjölgun atvinnutækifæra á stærri vinnumarkaði. ESB tryggir einnig íbúum lítilla sveitarfélaga og dreifðra byggða efnahagslegt öryggi og bændum stöðugan kaupmátt. Auk þess er auðveldara og ódýrara að ferðast milli svæða og landa vegna uppbyggingu samgangna og samkeppnisreglna sem tryggja til dæmis samkeppni í flugrekstri. Innan ESB gefst ungu fólki tækifæri til þess að brjótast til mennta með jöfnum aðgangi að öllum menntastofnunum sambandsins og aðgengi að öflugum styrktarsjóðum svo fátt eitt sé nefnt.

Það er skylda ráðamanna að kanna allar færar leiðir til að tryggja efnahagslegt öryggi landsmanna. Þingmönnum gefst þessa dagana færi á því að kanna ítarlega það efnahagslega öryggi sem ESB hefur upp á að bjóða með því að samþykkja aðildarumsókn að sambandinu. Efnahagslegt öryggi er forsenda lífvænlegs samfélags. Nú reynir á að þingheimur móti heildstæða framtíðarstefnu og hætti smáskammtalækningum.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×