Viðskipti innlent

Áform sjávarútvegsráðherra eru nánast óframkvæmanleg

„Hafnarvog Vestmannaeyjahafnar hefur hvorki tæki né þau tól sem til þarf við að brúttóvigta öll ílát sem berast að landi í viku hverri ... Við núverandi aðstæður telja hafnaryfirvöld það nánast óframkvæmanlegt miðað við það magn af afla sem berst að landi á þeim skamma tíma sem um ræðir," segir í bréfi sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur sent til sjávarútvegsráðherra.

Fjallað er um málið á vefsíðu LÍÚ. Þar segir að í bréfinu til ráðherra er hvatt til þess að drög að nýrri reglugerð, sem kveður á um að allur ferskur fiskur sem fer til útflutnings skuli vigtaður hér á landi, verði endurskoðuð.

Í bréfi bæjarstjórans segir einnig: „Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa einnig verulegar áhyggjur af þeim tekjumissi sem sjómenn og útgerðarmenn verða fyrir í ljósi gæðarýnunar á afla. Einnig þeim fyrirsjáanlegu afleiðingum sem geta átt sér stað við að brjóta upp þau verðmætakerfi sem byggð hafa verið í kringum sölumál og markaðssetningu hjá útgerðarfélögum í Vestmannaeyjum við erlenda fiskmarkaði.

Gríðarlega miklar fjárfestingar hafa verið undanfarin ár hjá útgerðarfélögum í Vestmannaeyjum í nýjum og hátæknivæddum togveiðiskipum til að hámarka enn frekar gæði afla fyrir kröfuharða markaði. Þetta hefur komið sér einstaklega vel fyrir atvinnulífið hér í Vestmannaeyjum og byggt upp mjög mikilar vonir á meðal sjómanna og samfélagsins í heild sinni hér í Vestmannaeyjum."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×