Viðskipti innlent

Øygard blæs á gagnrýni AGS um of örar vaxtalækkanir

Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands blæs á gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um að bankinn hafi farið of hratt í vaxtalækkunarferlið undir hans stjórn fyrr í ár. Norskir fjölmiðlar fjalla um málið í dag.

Rætt er við Øygard í Aftenposten og vefsíðan e24.no fjallar einnig um málið. Í Aftenposten segir Øygard m.a. að hann telji ekki eðlilegt að hann standi í deilu við AGS um réttmæti vaxtalækkana sinna en bendir á að þær ákvarðanir sem bankinn tók undir stjórn hans muni sanna sig á næstu 2-3 árum.

Á vefsíðunni e24.no segir að undir stjórn Øygard hafi stýrivextir verið lækkaðir úr 18% og í 12% en að á sama tímabili hafi krónan veikst um 25%. Vefsíðan ræðir við Kristínu Bjarnadóttir sem segir frá þeim erfiðleikum sem veiking krónunnar hefur valdið henni, bæði hvað varðar hækkandi vöruverð. Á móti hafa stýrivaxtalækkandir Øygard létt undir með vaxtagreiðslum hennar.

Øygard bendir á í viðtalinu við Aftenposten að þegar ákvörðun var tekin um vaxtalækkanir í peningastefnunefnd Seðlabankans hafi nefndin verið sammála því mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að stefna að stöðugu gengi krónunnar.

Nauðsynlegt hafi verið að lækka vexti að mati Øygard til þess að örva atvinnulífið. „Við urðum að koma í veg fyrir að efnahagslífið stöðvaðist," segir Øygard.

Øygard bendir einnig á, að gengi krónunnar hafi að mestu leyti verið stöðugt frá því í vor. Jafnframt sé nú minna atvinnuleysi en spáð var og samdráttur í landsframleiðslunni minni en talið var að hann yrði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×