Viðskipti innlent

Skilanefnd Glitnis gæti eignast 10% í Actavis

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Skilanefnd Glitnis gæti eignast 10 prósenta hlut Salt Investments, félags í eigu Róberts Wessman, í lyfjafyrirtækinu Actavis. Viðræður standa yfir við skilanefndina um uppgreiðslu á tæplega 20 milljarða króna skuld félagsins.

Einkahlutafélagið Salt Financials er dótturfyrirtæki Salt Investments sem er í eigu athafnamannsins Róberts Wessman. Róbert keypti tvisvar hlut í Glitni. Fyrstu kaupin áttu sér stað árið 2007 og þau síðari, sem hafa fengið nafnbótina verstu viðskipti árisins 2008, örfáum dögum fyrir þjóðnýtingu Glitnis. Kaupin voru fjármögnuð af Glitni og fóru í gegnum félagið Salt Financials. Skuld þess félags við bankann nemur rúmum 16,6 milljörðum króna. Eign félagsins nemur 4 milljónum króna.

Móðurfélag Salt Financials, Salt Investments, ábyrgðist kaupin og skuldar Glitni að auki um 3 milljarða króna. Viðræður standa nú yfir við skilanefnd Glitnis um uppgreiðslu á þessum tæpum 20 milljörðum króna. Árni Harðarson, forstjóri Salt Investments, sagði í samtali við fréttastofu að nokkrar leiðir kæmu til greina í því samhengi, en ljóst væri að eign félagsins í Actavis yrði notuð til að greiða skuldina. Engar viðræður séu um afskrift á skuldum. Framtíð Salt Investments velti á verðmati hlutarins í lyfjafyrirtækinu.

Þá er enn óvissa hvort hægt sé að rifta seinni kaupum Róberts í Glitni en hann hefur lýst yfir að hann hyggist sækja það mál. Hinsvegar má ekki má lögsækja gömlu bankanna á meðan þeir eru í greiðslustöðvun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×