Skoðun

Kertafleyting við Tjörnina

Í áratugi hafa friðarsinnar á Íslandi komið saman við Tjörnina í Reykjavík og fleytt kertum til að minnast fólksins sem varð fyrir kjarnorkusprengjunum sem var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Í ár mun baráttufólk og friðarsinnar enn einu sinni hittast til að minnast atburðarins og setja fram kröfuna um framtíð án kjarnorkuógnar, í Reykjavík, á Akureyri, í Vestmannaeyjum og á Egilsstöðum og e.t.v. víðar hér á landi.

„Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis" er alþjóðleg aðgerð stofnuð af Húmanistahreyfingunni til að vekja menn til vitundar um hversu nauðsynlegt það er að efla frið og skapa samfélög án ofbeldis. Heimsgangan áréttar kröfur sínar um allan heim 6. ágúst næstkomandi. Forsvarsmaður göngunnar, Rafael de la Rubia, mun þá flytja ávarp við hátíðlega athöfn í Hiroshima. Í ávarpinu mun hann meðal annars segja:

Tökum saman höndum til stuðnings heimsgöngunni í þágu friðar og tilveru án ofbeldis og gerum eftirfarandi kröfur til þeirra sem deila og drottna:

n Kjarnavopnum verði útrýmt um allan heim

n Innrásarherir hverfi umsvifalaust heim frá hernumdum svæðum

n Hefðbundnum vopnum verði fækkað

n Ríki heims geri gagnkvæma samninga um að ráðast ekki hver á önnur

n Ríkisstjórnir hafni því að beita stríði sem aðferð til að skera úr deilum

Heimsgangan í þágu friðar og tilveru án ofbeldis er ákall til samvisku hvers og eins okkar, hún er röddin sem við þurfum að brýna í sameiningu og siðferðislegt tilboð. Þetta er það sem við verðum að gera á þeim erfiðu tímum sem nú eru. Í dag minnumst við íbúa Hiroshima og Nagasaki, heiðrum minningu þeirra og eflum þá heimshreyfingu sem er bæði opin og margbreytt, hafnar ofbeldi af öllu tagi og lýsir því yfir að ekkert sé verðmætara en mannslíf.

Við hvetjum alla landsmenn til að taka undir kröfuna um að eyða kjarnavopnum, leitast við að skapa heim án ofbeldis og mæta í kertafleytinguna kl. 22.30 við Tjörnina í Reykjavík, í Lystigarðinum á Egilsstöðum og á Akureyri.

Höfundur er fulltrúi Heimsgöngunnar í samstarfsnefnd friðarhópa.




Skoðun

Sjá meira


×