Innlent

Dóttir Sophiu Hansen kvödd til vitnis á Íslandi

Valur Grettisson skrifar

Sophia Hansen hefur verið ákærð fyrir að hafa borið Sigurð Pétur Harðarson, fyrrum útvarpsmann, röngum sökum sem leiddi til þess að hann var grunaður um skjalafals árið 2007.

„Þetta er rangt," svaraði Sophia Hansen í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar hún var spurð út í sakargiftirnar.

Um er að ræða þrjú viðskiptabréf sem hún taldi nafn sitt falsað á. Fól hún lögfræðingi sínum að kæra málið til lögreglu. Í vitnaskýrslu hjá lögreglunni lýsti hún því yfir að hana grunaði að Sigurður Pétur hefði falsað nafnið hennar sem á að hafa leitt til þess að hann var ranglega sakaður um skjalafals. Samtals nam upphæð viðskiptabréfanna rétt rúmum 42 milljónum króna.

Verjandi Sophiu, Kristján Stefánsson, sagði fyrir rétti að kveða þyrfti dóttur Sophiu til vitnis, en hún er búsett í Tyrklandi ásamt systur sinni. Þess má geta að dætur Sophiu hafa ekki komið til Íslands síðan fyrrum eiginmaður Sophiu, Halim Al, nam þær á brott snemma á tíunda áratugnum.

Þegar haft var samband við Kristján sagðist hann ekki muna hvora dótturina þyrfti að kveða til vitnis. Spurður hvernig dóttir Sophiu tengdist sakamálinu beint sagði hann að það kæmi í ljós þegar búið væri að kveða hana til vitnis.

Því er ljóst að dóttir Sophiu er hugsanlega á leiðinni til Íslands.

Dóttir Sophiu er ekki eina manneskjan á erlendri grundu sem verður kvödd til vitnis, því ákæruvaldið hyggst kveða útlenda rithandarsérfræðinga til þess að bera vitni í málinu.

Sigurður Pétur og Sophia hafa eldað grátt silfur undanfarin ár eftir kostnaðarsama baráttu Sophiu við að reyna að endurheimta dætur sínar frá Tyrklandi. Síðast höfðaði Sigurður Pétur einkamál á hendur Sophiu vegna peninga sem hann lánaði henni árið 1990. Dómur í því máli féll í febrúar, þá var Sophia dæmd til þess að greiða honum 20 milljónir króna.

Verði Sophia dæmd sek þá gæti hún átt yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi.

Aðalmeðferð málsins fer fram í byrjun febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×