Viðskipti innlent

Kauphöllin sektar Bakkavör og Milestone

Kauphöllin.
Kauphöllin.
Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Bakkavör Group og Milestone og beita févíti. Bakkavör er gert að greiða 2,5 milljónir króna í sekt vegna ummæla Lýðs Guðmundssonar stjórnarformanns félagsins í sjónvarpsviðtali. Sekt Milestone nemur 1,5 milljón króna.



Ummæli Lýðs í Markaðnum


27. október 2008 færði Kauphöllin hlutabréf Bakkavarar á Athugunarlista sökum óvissu varðandi fjárhagslega stöðu félagsins og verðmyndun fjármálagerninga þess. Taldi Kauphöllin að upplýsingar sem komið höfðu fram í ummælum stjórnarformanns félagsins í viðtali í Markaðnum á Stöð 2 teldust verðmótandi. Þar sem upplýsingarnar voru ekki birtar opinberlega var talin hætta á ójafnræði meðal fjárfesta varðandi aðgang að upplýsingunum.

Upplýsingarnar vörðuðu ákvæði í lánasamningi Bakkavarar sem stjórnarformaður félagsins sagði veita lánveitendum félagsins heimild til gjaldfellingar ef breytingar yrðu á stjórn Exista hf., stærsta eiganda hlutafjár í Bakkavör, án samþykkis lánveitenda Bakkavarar.

Grein um fjárhagsstöðu Milestone

Málavextir í máli Milestone eru þeir að þann 15. nóvember í fyrra birtist grein í fjölmiðlum um fjárhagsstöðu Milestone. Var því haldið fram í greininni að Milestone hefði ekki greitt víxil sem var á gjalddaga 26. október 2008. Fram kemur að tilkynning frá Milestone þess efnis var síðar birt opinberlega 19. nóvember.

Í kjölfarið fór Kauphöllin fram á formlegar skýringar á því af hverju tilkynning um drátt á greiðslum vegna víxilsins var ekki birt opinberlega um leið og útgefanda varð ljóst að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt skilmálum víxilsins samkvæmt reglum Kauphallarinnar.

Fram kemur á vef Kauphallarinnar fyrirtækið hafi þá m.a. vísað til þess að öllum hefði átt að vera ljóst að flest fyrirtæki á Íslandi væru tæknilega ógjaldfær og því hefði ekki verið talin þörf á að birta tilkynningu um drátt á afborgunum af fyrrgreindum verðbréfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×