Viðskipti innlent

William Fall: Ætlar að gefa vangoldin laun til góðgerðamála

William Fall fyrir hrun.
William Fall fyrir hrun.

Fyrrum bankastjóri Straums, William Fall, sagði í viðtali við Kastljós í kvöld að hann mun gefa launakröfu sína, sem hann hefur gert í þrotabú Straums, til góðgerðarmála hér á landi verði hún samþykkt. Um er að ræða 640 milljón króna launakröfu sem hann krefst af þrotabúinu en málið hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Spurður hvort það sé eðlilegt að hann geri slíka kröfu í þrotabúið, í ljósi þess að bankinn fór í þrot undir hans stjórn, segir William að málið verði að meta út frá tvennskonar forsendum. Annarsvegar lagalegum, og sjálfur telur hann lagaleg rök fyrir því að fá kröfuna samþykkta. Og svo þarf að skoða málið út frá siðferðislegum forsendum, sem eru talsvert flóknari að sögn Williams.

Hann segist ekki vilja hagnast á því ástandi sem hér ríkir, þess vegna hafi hann ákveðið að gefa peninginn í góðgerðarmál, verði krafan samþykkt.

Spurður hvort hann sé sammála því að Straumur hafi verið þjóðnýttur segir William að bankinn hafi verið kominn í þrot. Forsvarsmenn bankans leituðu því ásjár Seðlabanka Íslands sem síðar tók ákvörðun um að þjóðnýta bankann í heild sinni.

Hann segir ákvörðun Seðlabankans hafa verið mjög sársaukafulla fyrir hann sjálfan. Hann segir það búið og gert og því tími til þess að horfa fram á við.

Að lokum sagði William að hann vonaði að Íslendingar dæmdu ekki íslenskan fjármálamarkað út frá því sem er að gerast nú. Hann bendir á að Íslands búi yfir gífurlega hæfileikaríku fólki í fjármálastarfseminni hér á landi og sama fólk geti skilað landinu aftur út í alþjóðleg viðskipti.

Hann segir kerfið eins og það var þó hafa verið of stórt og of áhættusækið. Það sé augljóst að fjármálamarkaðurinn hér á landi verði mun minni í sniðum en hann var áður að sögn Williams.

Yfirlýsingu frá honum má lesa hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×