Viðskipti innlent

Heildarútlán ÍLS jukust um 34% milli mánaða

Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) rúmlega 2,4 milljörðum króna í nóvember. Þar af voru tæpir 1,5 milljarðar vegna almennra lána og rúmar 900 milljónir vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins jukust því um tæp 34% frá fyrra mánuði, sem aðallega skýrist vegna aukningar á lánum til leiguíbúðafélaga þar sem almenn útlán drógust saman um tæplega 5%.

Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) rúmlega 2,4 milljörðum króna í nóvember. Þar af voru tæpir 1,5 milljarðar vegna almennra lána og rúmar 900 milljónir vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins jukust því um tæp 34% frá fyrra mánuði, sem aðallega skýrist vegna aukningar á lánum til leiguíbúðafélaga þar sem almenn útlán drógust saman um tæplega 5%.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu ÍLS. Þar segir að meðalútlán almennra lána voru um 9 milljónir króna í nóvember sem er um 3% lægra en í fyrra mánuði. Heildarútlán sjóðsins nema því tæpum 29 milljörðum króna það sem af er árinu 2009 en það eru um 56% minni útlán en á sama tímabili árið 2008.

Heildarvelta íbúðabréfa í nóvember nam rúmum 54 milljörðum króna en það er 44% minni velta en í fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur tæpum 864 milljörðum það sem af er árinu 2009 sem er 63% minni velta en fyrir sama tímabil árið 2008. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði í nóvember um 4 til 42 punkta eftir flokkum.

Þann 20. nóvember rann út frestur til að afþakka greiðslujöfnun fasteignaveðlána vegna gjalddaga í desember, en nýlega voru öll slík lán sjálfkrafa sett í greiðslujöfnun með lögum. Hjá Íbúðalánasjóði voru 23.146 einstaklingar sem afþökkuðu greiðslujöfnun á 38.087 lánum. Þetta eru 47,7% þeirra einstaklinga sem eru lántakar hjá Íbúðalánasjóði og 46,7% af fjölda lána. Þar af eru 14.709 lántakendur í Reykjavík og 8.437 á landsbyggðinni.

Í aldurshópnum 50 -60 ára er hæsta hlutfall þeirra sem afþakka greiðslujöfnun, eða 50,9%, en fæstir afþakka meðal þeirra sem eru yngri en 30 ára, eða 29,6%. Mögulegt er að segja sig í eða frá greiðslujöfnun á hvaða tíma sem er en 10 dögum fyrir gjalddaga í hvert sinn.

Þann 25. nóvember tilkynnti Íbúðalánasjóður samþykkt stjórnar sjóðsins um að réttur til að breyta vöxtum skuldabréfa sem sjóðurinn hefur keypt eða yfirtekið af öðrum fjármálastofnunum skuli ekki nýttur í fyrsta sinn sem hann myndast. Vextir af þessum skuldabréfum verða því óbreyttir a.m.k. næstu fimm árin. Hefðbundin lán Íbúðalánasjóðs eru hinsvegar með föstum vöxtum.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu um 704 milljónum króna í nóvember og voru afborganir að mestum hluta vegna húsnæðisbréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í nóvember námu um 1,2 milljörðum króna. Heildaruppgreiðslur allra lána Íbúðalánasjóðs eru því um 8,3 milljarður króna það sem af er árinu 2009.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×