Erlent

Umbótasinnar myrtir í Teheran

Ómögulegt er að fá staðfest hversu margir hafa látist í mótmælunum í Íran, þar sem stjórnvöld hafa takmarkað mjög starf erlendra fréttamanna í landinu. Samkvæmt írönskum ríkisfjölmiðlum létust átta á sunnudaginn en umbótasinnar segja að fimmtán hafi látist. Hundruð manna hafa verið tekin höndum.

Öryggissveitir stjórnvalda handtóku í gær fjölda umbótasinna þar á meðal samstarfsmenn Mirs Hosseins Mousavi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Þá var Seyed Ali Mousavi, frændi stjórnarandstöðuleiðtogans, myrtur í gær og hefur ólgan vaxið eftir að þær fréttir bárust út.

Lík Seyeds Ali Mousavi var flutt af spítalanum og er nú í vörslu öryggissveitanna. Fulltrúar stjórnarinnar segja nauðsynlegt að kryfja líkið til að komast nákvæmlega að því hvað gerðist. Umbótasinnar segja þetta skrípaleik.

Stjórn landsins sé að hindra það að Seyed Ali Mousavi verði jarðaður að íslömskum sið en samkvæmt honum eru látnir jarðaðir strax. Segja umbótasinnarnir að stjórnin sé hrædd við að jarðarförin muni leiða til enn frekari mótmæla en þau blossuðu einmitt fyrst upp 21. desember þegar umbótasinnaði klerkurinn Ayatolla Hoseyn Montazeri var jarðaður.

Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland og Kanada hafa öll fordæmt aðgerðir írönsku öryggissveitanna. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði þær ólíðandi og hvatti stjórnvöld í Teheran til að virða almenn mannréttindi.- th




Fleiri fréttir

Sjá meira


×