Viðskipti innlent

Færeyskt tryggingafélag vill á íslenskan markað

Edvard Heen, framkvæmdastjóri TF.
Edvard Heen, framkvæmdastjóri TF.

Tryggingarfelagið Føroyar stefnir að því að hefja starfsemi á Íslandi fyrir árslok 2009. Þetta tilkynnti Edvard Heen, framkvæmdastjóri félagsins, á fréttamannafundi í morgun í Reykjavík. Á fundinum kom fram að ráðamenn í færeyska félaginu hefðu frá því snemma árs 2007 kannað möguleika á að koma inn á íslenska markaðinn. Veruleg hreyfing hafi komist á málið í ágúst 2008 og formleg ákvörðun um starfsemi á Íslandi síðan verið tekin á stjórnarfundi fyrirtækisins fyrir réttum tveimur vikum, 24. febrúar 2009.

Ekki er að fullu ljóst með hvaða hætti félagið mun taka til starfa hér á landi en fjórir möguleikar eru í stöðunni: Að hefja beina sölu á vátryggingum, stofna útibú, stofna íslenskt félag í eigu TF eða þá að kaupa starfandi íslenskt félag og kom fram á fundinum að það væri ákjósanlegasti kosturinn að mati færeyinganna.

„Álitlegasti kosturinn er sá að kaupa að fullu eða að hluta tryggingafélag í rekstri og ráðamenn TF sjá ýmsa möguleika í þeirri stöðu," segir í tilkynningu frá félaginu. „Þeir hafa undanfarna mánuði rætt við fulltrúa tryggingafélaga, banka og íslenskra stjórnvalda og kynnt áhuga sinn og fyrirætlanir um fjárfestingar í tryggingaþjónustu á Íslandi."

Rætur til 19. aldar

„Tryggingarfelagið Føroyar á að baki sjö áratuga sögu í tryggingastarfsemi, með rætur í tryggingum allt aftur á 19. öld. Félagið hefur 75-80% markaðshlutdeild í skaðatryggingum í Færeyjum og er mjög stöndugt fjárhagslega," segir ennfremur í tilkynningunni. Félagið býður alhliða tryggingaþjónustu fyrir heimili, fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga að líftryggingum þó undanskildum. „Tryggingatakar hjá TF eru um 31.000, þar af um 23.000 fjölskyldur, einstaklingar og heimili, um 2.000 tengdir sjávarútvegi og um 6.000 tengdir öðrum atvinnurekstri. Tryggingatakarnir eru jafnframt eigendur félagsins því TF er gagnkvæmt tryggingafélag (e. mutual insurance company)," segir einnig.

Erlend fjárfesting flýtir fyrir endurreisn

„Fjárfestingar erlendra fyrirtækja flýta fyrir því að íslenskt samfélag komist á skrið að nýju. Okkur er það því ánægjuefni að tilkynna áform um fjárfestingar í íslensku atvinnulífi, sem vonandi stuðla að því að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar og tryggja störf sem fyrir eru eða skapa ný störf," sergir Edvard Heen framkvæmdastjóri TF.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×