Viðskipti innlent

Iceland Express til Winnipeg

Iceland Express ætlar að hefja áætlunarflug til Winnipeg í Kanda næsta sumar. Í tilkynningu frá félaginu segir að flogið verði einu sinni til tvisvar í viku, á miðvikudögum og laugardögum, frá og með júníbyrjun. Þar með fjölgar áfangastöðum félagsins í 27 og hafa þeir aldrei verið fleiri.

„Winnipeg er höfuðborg og jafnframt stærsta borg Manitoba í Kanada. Hátt í 1.300 þúsund manns búa í Manitoba.Í Winnipeg og nágrenni hennar er mikið af fallegum görðum, svo og mörg stöðuvötn, eins og Lake Winnipeg og Lake Manitoba. Vetraríþróttir eru mikið stundaðar á þessum slóðum, nægir að nefna skíðaiðkun og skautahlaup. Þá er Háskólinn í Manitoba staðsettur í Winnipeg. Frá Winnipeg eru svo tengiflug til margra staða í Kanada, í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku."

Að sögn hefur verið mikill uppgangur í Winnipeg undanfarin misseri, þrátt fyrir efnahagslægð víðast annars staðar. Hagur íbúanna hefur vænkast, fasteignaverð hækkað og atvinnuleysi er hverfandi. „Um 19 prósent íbúa Manitoba eru af erlendum uppruna. Í því sambandi má geta þess, að samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er talið, að allt að hálf milljón Ameríkumanna eigi rætur sínar að rekja til Íslands. Vestur-Íslendingar reka blómleg átthagafélög víða og flest þeirra eru í Manitoba," segir ennfremur í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×