Viðskipti innlent

Fjárfest í þremur fyrirtækjum frá Viðskiptasmiðjunni

Fjárfestingarsjóðir sem sérhæfa sig í sprotafyrirtækjum hafa fjárfest þrisvar á árinu. Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins fjárfesti í Gogoyoko og Frumtak fjárfesti í Trackwell og AGR. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að taka öll þátt í Viðskiptasmiðjunni - Hraðbraut nýrra fyrirtækja sem rekin er af Klak - Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins.

Þrjú fyrirtæki úr Viðskiptasmiðjunni voru sérstaklega verðlaunuð á aðalfundi Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.

Aðalfundur Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins var síðasta föstudag, 17. apríl, 2009. Á fundinum var farið yfir síðastliðið starfsár en einnig markaði fundurinn lok 2. annar Viðskiptasmiðjunnar.

Í tilkynningu segir að fyrirtækið E-label , sem sérhæfir sig í klæðnaði og tengdum vörum fyrir nútímakonuna, fékk verðlaun fyrir bestan árangur á fyrstu önn en E-label hefur á námstímanum gjörbreytt starfsemi sinni, opnað heildsölu í London og eru í samningaviðræðum við stóran dreifingaraðila í Bretlandi.

Trackwell, forðastýringarkerfi fyrir flutningafyrirtæki sem stefnir á Bandaríkjamarkað hlaut verðlaun fyrir góðan árangur á annarri önn. Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak fjárfesti í Trackwell í febrúar síðastliðnum.

In Spirit of Iceland hlaut hvatningarverðlaun Viðskiptasmiðjunnar sinnar fyrir framúrskarandi viðskiptaáætlun og spennandi verkefni. Fyrirtækið hjálpar einstaklingum að ná hámarksárangri í lífinu og jafnvægi milli líkama, hugar og anda.

Viðskiptasmiðjan - Hraðbraut nýrra fyrirtækja er þekkingarstuðningskerfi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Verkefnið er samstarfsverkefni Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins, Háskólans í Reykjavík, Copenhagen Business School, Lund University og Öresund Entrepreneurship Academy.

Tilgangur Viðskiptasmiðjunnar er að hjálpa frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum að skapa verðmæti og undirstöður fyrir farsælan fyrirtækjarekstur. Rannsóknir sýna að skortur á viðskiptaþekkingu er einn helsti veikleikinn í uppruna- og vaxtarferli fyrirtækja. Aðrar ástæður eru til dæmis skortur á þekkingu á rekstri sprotafyrirtækja og endurmati á starfseminni, skortur á tenglaneti við sérfræðinga, fjárfesta og aðra frumkvöðla, skortur á hvatningu og uppbyggilegri gagnrýni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×