Viðskipti innlent

Bílalán ekki leiðrétt hjá Lýsingu

Engar leiðréttingar á bílalánum verða um mánaðamótin hjá Lýsingu eins og nýsamþykkt lög gera ráð fyrir. Ekki í takt við loforð stjórnvalda segir lántaki sem fékk óleiðréttan greiðsluseðil í dag. Hann segir það pirrandi að fá þetta í hausinn núna þar sem fólk hafi búist leiðréttri greiðslubyrði nú um mánaðarmótin.

Aðgerðir stjórnvalda vegna greiðsluvanda heimilanna eiga samkvæmt lögum að taka gildi fyrsta nóvember. Nú eru greiðsluseðlarnir fyrir nóvember að detta inn um lúgurnar hjá landsmönnum og ekki er að sjá að breytingin taki gildi hjá öllum núna um mánaðarmótin.

Lántaki hjá Lýsingu sendi fréttastofu tölvupósts-samskipti sín við þjónustufulltrúa Lýsingar. Þar spyr hann hvort að innheimta í nóvember verði miðuð við gengi erlendra mynta eins og þau standi í dag þrátt fyrir tilmæli stjórnvalda. Hvort hann mætti því búast við 34 þúsund króna greiðsluseðli í stað leiðréttrar upphæðar sem næmi þá um 17 þúsundum króna.

Í svari til hans kemur fram að engar leiðréttingar muni eiga sér stað fyrr en í desember þar sem gjalddagar bílasamninga séu gefnir út 24. hvers mánaðar. Lántakinn sem fékk óleiðréttan greiðsluseðil í dag segir þetta ekki í takt við loforð stjórnvalda. Fólk hafi búist við að greiðslubyrðin yrði leiðrétt um mánaðarmótin. Því sé pirrandi að fá þetta í hausinn núna.

Framkvæmdastjóri Lýsingar vildi ekki tjá sig um málið. Það eru þó ekki öll bílafjármögnunarfyrirtæki sem afgreiða málið á þennan hátt því leiðréttingarnar taka gildi núna um mánaðarmótin hjá t.a.m. SP fjármögnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×