Viðskipti innlent

Mun líklega verða stærsti eigandi Alfesca á ný

Ólafur Ólafsson mun að öllum líkindum tryggja sér vel yfir helmingshlut í Alfesca og verða stærsti eigandi félagsins á nýjan leik. Slíkt mun Ólafur gera í gegnum nýtt félag sem hann stofnaði í byrjun árs.

Ólafur Ólafsson hefur verið ráðandi eigandi í Alfesca í mörg ár í gegnum fjárfestingafélag sitt, Kjalar Invest.

Eftir bankahrunið flutti Ólafur Kjalar Invest úr Eglu, félagi sínu sem nú er í nauðasamningum, og inn í nýtt íslenskt félag í samráði við lánadrottna Kjalars. Í byrjun árs 2009 stofnaði hann síðan félagið Alta Food Holding, og rann Kjalar Invest og þar með 40% eignarhlutur í Alfesca, þangað inn.

Kjalar Invest myndaði nýlega samstarf með franska félaginu Lur Berri Holding og Kaupþingi Singer&Friedlander og gerðu þessir aðilar yfirtökutilboð í Alfesca, sem hluthafar samþykktu í ágúst og leiðir til þess að Alfesca verður tekið úr kauphöllinni.

Alta Food Holding sem nú á Kjalar Invest hefur einnig gert samkomulag við Kaupþing Singer&Friedlander um að bankinn geti einhliða og að eigin geðþótta ákveðið að veita Alta Food Holding kauprétt að 24% hlut bankans í Alfesca - fyrir 6 milljarða. Ef svo fer verður kauprétturinn virkur 30. nóvember næstkomandi. Líklegt má telja að Kaupþing Singer&Friedlander ákveði að selja hlut sinn í Alfesca, enda er bankinn í greiðslustöðvun.

Ekki liggur fyrir hvernig Ólafur hyggst fjármagna kaupin ef til þeirra kemur.

Ef hins vegar allt þetta gengur upp er ljóst að Ólafur Ólafsson mun eiga samtals 64% hlut í Alfesca innan skamms, í gegnum félagið Alta Food Holding sem hann stofnaði í byrjun árs.

Ólafur Ólafsson lék stórt hlutverk þegar hinn margumræddi sjeik Mohamed Al Thani keypti 5% hlut í Kaupþingi rétt fyrir bankahrunið. Hinn sami Al Thani ætlaði einnig að kaupa hlut í Alfesca sumarið 2008, en hætti síðan við.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×