Viðskipti innlent

Greining: Merkilega líkar hagspár miðað við óvissu

Greining Íslandsbanka fjallar um það í Morgunkorni sínu hve hagspár þær sem birtar hafa verið að undanförnu séu merkilega líkar hvor annarri miðað við þá óvissu sem framundan er í efnahagsmálum þjóðarinnar.

„Má nefna óvissu varðandi hvernig tekst að greiða úr fjárhagslegri stöðu fyrirtækja og heimila, hvernig tekst til við afnám gjaldeyrishafta, hvernig framvindan verður í uppbyggingu bankakerfisins, hvað verður með aðild að ESB, hvernig fer með Icesave, hver verður staða alþjóðlegra efnahagsmála, hvað verður með stóriðjuframkvæmdir, hvað með kjarasamninga, hvernig verður úthlutun aflaheimilda og verðþróun sjávarafurða," segir í Morgunkorninu.

Greiningin segir að allar þessar spár byggi í stórum dráttum á svipuðum forsendum og þ.m.t. því að meginmarkmiðin í efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS gangi eftir og það takist m.a. í raun að halda krónunni stöðugri og jafnvel styrkja hana þegar fram í sækir. Að endurreisn fjármálakerfisins gangi að óskum og það takist að haga ríkisfjármálum þannig að skuldabagginn verði ekki óviðráðanlegur og afgangur skapist fljótlega til að greiða niður skuldir. „Ekki er loku fyrir það skotið að efnahagsþróunin verði með talsvert öðrum hætti," segir í Morgunkorninu.

Það kemur greiningunni ekki á óvart að efnahagsspá Seðlabankans sem birt var í gær sé í takti við þær spár sem AGS og fjármálaráðuneytið hafa birt nýlega. Í raun má bæta við fleiri hagspám sem hafa verið á sömu nótum, s.s. spá ASÍ sem birt var fyrir skömmu.

Seðlabankinn spáir því að samdráttur landsframleiðslu verði 8,5% í ár en í spá fjármálaráðuneytisins sem birtist í upphafi október er reiknað með 8,4% samdrætti og í nýjustu spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er reiknað með 8,5% samdrætti.

Líkt og Seðlabankinn reikna bæði fjármálaráðuneytið og AGS með því að samdrátturinn haldi áfram fram á næsta ári en þá verður hann 1,9-2,4% samkvæmt þessum spám. Vaxandi slaki með samdrætti landsframleiðslu mun kalla fram aukið atvinnuleysi sem Seðlabankinn reiknar með að verði 9,8% á næsta ári en bæði AGS og fjármálaráðuneytið reikna með því að það verði 10,6%.

Samkvæmt öllum þessum spám mun gengi krónunnar verða stöðugt eða styrkjast á næstunni um leiða og hagkerfið ná betra jafnvægi með hjöðnun verðbólgunnar og minnkandi viðskiptahalla.

Seðlabankinn líkt og fjármálaráðuneytið og AGS reikna með því að hagkerfið taki við sér árið 2011. Spáir Seðlabankinn því að hagvöxtur það ár verði 2,2% sem er nálægt spá fjármálaráðuneytisins sem hljóðar upp á 2,8% vöxt. Þetta er hins vegar öllu kröftugri vöxtur en AGS er að reikna með en sjóðurinn spáir 0,9% hagvexti hér á landi árið 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×